Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Brynhildur Guðjóns ráðin borgarleikhússtjóri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Brynhildur Guðjóns ráðin borgarleikhússtjóri

14.02.2020 - 15:23

Höfundar

Brynhildur Guðjónsdóttir, leikkona og leikstjóri, hefur verið ráðin borgarleikhússtjóri. Hún tekur við starfinu af Kristínu Eysteinsdóttur. Þetta var tilkynnt á fundi með starfsfólki í dag.

Staða borgarleikhússtjóra var auglýst í janúar og sóttu sjö um hana. Stefnt var að því að nýr leikhússtjóri tæki til starfa við hlið Kristínar Eysteinsdóttur um áramót og tæki síðan alfarið við starfinu þegar síðari ráðningartímabili hennar lyki í júlí á næsta ári. Kristín óskaði aftur á móti eftir því í vikunni að fá að hætta fyrr en áætlað var. 

Í tilkynningu frá stjórn leikfélags Reykjavíkur segir að Brynhildur sé í hópi fremstu leikhúslistamanna á Íslandi um þessar mundir. Segir í tilkynningunni að stjórn Leikfélags Reykjavíkur fagni ráðningu Brynhildar og bjóði hana velkomna til forystu í Borgarleikhúsinu. 

Brynhildur þakkar traustið og segist taka við keflinu með gleði.

„Það er mín von að Borgarleikhúsið verði áfram sjálfsagður viðkomustaður allra landsmanna, kröftug listastofnun sem nærir, miðlar og gleður. Að þessu sögðu hlakka ég til að setja upp skipstjórahúfuna og, ásamt hinum öfluga, samstillta og flinka hópi starfsmanna leikhússins, setja á fullt stím inn í nýja framtíð.“

Fréttin hefur verið uppfærð.