Vigdís og Rán voru gestir í Morgunkaffinu og ræddu við Gísla Martein og Björgu Magnúsdóttir um heima, geima og nýútkomna bók. Við gerð bókarinnar hleypti Vigdís Rán inn á heimili sitt sem hún teiknar upp í miklum smáatriðum í bókinni. „Hún er með alvöru sverð við sófabríkina,“ segir Rán. „Ég fékk það í Finnlandi í Háskólanum í Tampere,“ segir Vigdís, „og ég fékk það til að verja vísindin. Ég var látin skerpa það á hverfisteini og það var hellt kampavíni á steininn. Ég skildi meira að segja þegar maður sem hellti kampavíninu spurði rektorinn sem var að gera mig að heiðursdoktor, „á ég að hella því öllu?“, og rektorinn svaraði „Já. Láttu það gossa!““
Ætlaði ekki að hafa þjóðina á brjósti
Þegar Vigdís bauð sig fram til forseta árið 1980 atti hún kappi við Albert Guðmundsson þingmann og borgarfulltrúa, Guðlaug Þorvaldsson ríkissáttasemjara og Pétur J. Thorsteinsson sendiherra. Þeim fannst hún oft helst til galvösk á framboðsfundum, en afstaða til kvenna var þá allt önnur en nú. „Kvenfólk átti ekkert að vera að þvælast upp á dekk. Þær máttu kannski fara í kennslu eða slíkt en ekki í framvarðasveit stjórnmálanna.“ Í kosningabaráttunni var hún oft spurð spurninga sem karlarnir fengu ekki og vakti oft athygli fyrir hnyttin tilsvör. Í eitt skipti var hún til að mynda spurð hvernig kona með eitt brjóst gæti orðið forseti og hún svaraði til: „Ég veit nú ekki til þess að ég ætli að hafa þjóðina á brjósti!“