Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Brýndi sverð með kampavíni til að verja vísindin

Mynd: Davíð Roach / Davíð Roach

Brýndi sverð með kampavíni til að verja vísindin

15.12.2019 - 11:35

Höfundar

„Þetta er nú bara með skemmtilegustu bókum sem ég hef lesið eða skoðað,“ segir frú Vigdís Finnbogadóttur um Vigdís: Bókin um fyrsta konuforsetann, eftir teiknarann Rán Flygenring. Bókin hlaut verðlaun bóksala í flokki barnabóka í síðustu viku.

Vigdís og Rán voru gestir í Morgunkaffinu og ræddu við Gísla Martein og Björgu Magnúsdóttir um heima, geima og nýútkomna bók. Við gerð bókarinnar hleypti Vigdís Rán inn á heimili sitt sem hún teiknar upp í miklum smáatriðum í bókinni. „Hún er með alvöru sverð við sófabríkina,“ segir Rán. „Ég fékk það í Finnlandi í Háskólanum í Tampere,“ segir Vigdís, „og ég fékk það til að verja vísindin. Ég var látin skerpa það á hverfisteini og það var hellt kampavíni á steininn. Ég skildi meira að segja þegar maður sem hellti kampavíninu spurði rektorinn sem var að gera mig að heiðursdoktor, „á ég að hella því öllu?“, og rektorinn svaraði „Já. Láttu það gossa!““

Ætlaði ekki að hafa þjóðina á brjósti

Þegar Vigdís bauð sig fram til forseta árið 1980 atti hún kappi við Albert Guðmundsson þingmann og borgarfulltrúa, Guðlaug Þorvaldsson ríkissáttasemjara og Pétur J. Thorsteinsson sendiherra. Þeim fannst hún oft helst til galvösk á framboðsfundum, en afstaða til kvenna var þá allt önnur en nú. „Kvenfólk átti ekkert að vera að þvælast upp á dekk. Þær máttu kannski fara í kennslu eða slíkt en ekki í framvarðasveit stjórnmálanna.“ Í kosningabaráttunni var hún oft spurð spurninga sem karlarnir fengu ekki og vakti oft athygli fyrir hnyttin tilsvör. Í eitt skipti var hún til að mynda spurð hvernig kona með eitt brjóst gæti orðið forseti og hún svaraði til: „Ég veit nú ekki til þess að ég ætli að hafa þjóðina á brjósti!“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rán teiknar skeytið frá sjóurunum í bókina.

Vigdís segist hafa tekið endanlega ákvörðun um að fara í framboð eftir henni barst skeyti með stuðningsyfirlýsingu frá sjómönnum að vestan. „Það var ekki móðins þá að konur færu í framboð. Ég held það hafi verið ein eða tvær á þingi.“ Eftir að framboðið var farið af stað hafði hún í nógu að snúast og oft var það erfitt. „En ég bara vinn mína vinnu og hélt áfram. Og var svo yfir mig hissa þegar ég var kosin.“ Hún sagði tilganginn með framboðinu ekki endilega sá að vera forseti. „Ég gerði þetta bara til að standa mig,“ segir Vigdís og vitnar í kvæði Þorsteins Valdimarssonar frá Teigi í Vopnafirði:

Að endingu standa sig
þeir einir, sem vanda sig
frá upphaf' í því
sem er innan handar
að standa sig í.

„Sennilega hefur mér verið eitthvað innan handar að standa mig í þessu úr því ég var kosin. En ég var reyndar mjög naumlega kosin. Það voru nokkur stig milli okkar Guðlaugs [Þorvaldssonar] og ég vildi endilega að hann færi í þetta,“ segir Vigdís. „Ég kaus hann auðvitað. Hann kaus mig og ég kaus hann.“ Í kosningabaráttunni ferðaðist Vigdís um allt land og hugsar til þess með hlýhug nú áratugum síðar. „Ég gisti aldrei á hótelum og borðaði aldrei á veitingastöðum, það var alltaf fólk sem bauð mér heim til sín og ég gisti í barnaherbergjunum. Svo flaug ég á litlum rellum á milli og flugmennirnir sögðu að ég ætti að taka flugmannsprófið, ég kynni þetta orðið alveg.“

Lánaðist að verða ekki leiðinleg

Hún talaði við alla og þrátt fyrir að vera úr Vesturbænum kynnti hún sér hluti eins og búskap og aflabrögð og var viðræðuhæf og rúmlega það við bændur og sjómenn á ferðum sínum um landið. „En af hverju stóðu sjómennirnir með mér? Það er því að sjómenn vita nákvæmlega hvað konur geta, þær sjá um allt meðan þeir eru í burtu. Ég hef aldrei heyrt nokkurn Íslending tala jafn fallega um konur og sjómennirnir.“ Vigdís segir að sinn helsti ótti við framboðið á sínum væri við það að vera leiðinleg. „En mér lánaðist að verða það ekki. Enginn hefur allavega sagt það við mig enn þá.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Mikið vatn hefur runnið til sjávar í jafnréttismálum frá því Vigdís varð forseti og hún segist glöð ef hún hefur orðið einhverjum konum innblástur. „Það eina sem ég hef gert sem er merkilegt í lífinu, er að gefa stelpum trú á sjálfa sig.“ Rán segir að það hafi verið virkilega erfitt að velja bara örfáa viðburði úr ævi Vigdísar til að teikna í bókina. „Eftir að bókin kemur út er ég líka að heyra svo miklu fleiri sögur. Þyrfti eiginlega að safna saman í framhaldshefti. Vigdís er til dæmis heiðursfélagi hjá vinum Dóra sem ég hitti alltaf í sundinu á morgnana.“

Snjóflóðin eftirminnilegust

Á tíma sínum sem forseti starfaði Vigdís með fjórum forsætisráðherrum, Gunnari Thoroddsen, Steingrími Hermannssyni, Þorsteini Pálssyni og Davíð Oddssyni. Hún segir samstarfið við alla hafa verið ánægjulegt og hún hafi alltaf átt vikulega fundi með forsætisráðherra. Hún vill ekki gera upp á milli þeirra og segir alla jafn skemmtilega. „En Davíð er kannski mesti húmoristinn.“ Vigdís reyndi alltaf að vera ópólitískur forseti þótt einstaka mál hafi reynst henni erfitt, eins og þegar sett var lögbann á verkfall flugfreyja árið 1985 en þá beið hún fram yfir hádegi með að skrifa undir lögin.   

Hún þarf samt ekki að hugsa sig tvisvar um hvað sé minnisstæðast af ferlinum. „Því er nú auðsvarað. Það eru slysin á Flateyri og Súðavík. Við flugum vestur strax, Davíð Oddsson og ég, til að sýna samstöðu. Það er svo greipt í minnið að ég gleymi því aldrei. Man það alltaf þegar ég kem eitthvað nálægt Vestfjörðum.“ En hún man líka eftir góðu stundunum, það hafi verið mjög skemmtilegt að kynnast börnum og gróðursetja tré með þeim. „Þá var ég ekki að hugsa um neina kolefnisjöfnun, ég var fyrst og fremst að hugsa um að binda landið, því það var að fjúka burt.“

Björg Magnúsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson ræddu við Vigdísi Finnbogadóttur og Rán Flygenring í Morgunkaffinu.