Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Brýnasta verkefnið er að vera manneskja

Mynd: Ragnar Visage / Ragnar Visage

Brýnasta verkefnið er að vera manneskja

11.01.2020 - 10:51

Höfundar

Guðrún Eva Mínervudóttir varð að eigin sögn ólétt af fyrstu skáldsögunni á bakpokaferðalagi um Evrópu, þá 18 ára gömul. Síðan þá var ekki aftur snúið og hefur hún gefið út 13 bækur á ferlinum. Hún hlaut á föstudag viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins 2020 fyrir ævistarf sitt.

Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut á föstudag viðurkenningu Rithöfundsasjóðs Ríkisútvarpsins. Þetta var í 64. skipti sem sjóðurinn veitir viðurkenninguna, eru þetta elstu rithöfundaverðlaun Íslendinga og eina viðurkenningin sem verðlaunar ævistarf höfunda frekar en einstök verk.

Guðrún Eva gaf ung út sína fyrstu skáldsögu og hún hefur verið afkastamikill rithöfundur. Hún hefur gefið út alls 13 bækur, ýmist skáldsögur, ljóð smásögur og einnig þýðingar. Í viðtali við Jórunni Sigurðardóttur segist hún samt ekki hafa skrifað að ráði í menntaskóla og hafði enga drauma um að verða rithöfundur.

„Þegar ég byrjaði að skrifa þá byrjaði ég á minni fyrstu skáldsögu. Það var bara af því að ég fékk einhvern gríðarlegan innblástur sem þrykktist ofan í mig.“ Upphafið rekur hún til atviks sem átti sér stað þegar hún var á bakpokaferðalagi í Evrópu, þá 18 ára gömul, ásamt vinkonu. Í Feneyjum áttu þær í miklum vandræðum með að finna gistingu – „við knúðum dyra alls staðar og alls staðar var okkur vísað í burtu“ – en þegar þeim bauðst loksins náttstaður í litlu vinnukonuherbergi undir hanabjálka gerðist það: „Ég varð ólétt af minni fyrstu skáldsögu. Í fluginu á leiðinni heim byrjuðu setningarnar að koma og ég var ekki fyrr lent þegar ég reyndi að skrifa þær niður. En gat ekki skrifað nógu hratt og varð pirruð. Reif blaðið með pennanum. Svo keypti ég mér notaða fartölvu og bara byrjaði. Það tók mig ár að skrifa þessa fyrstu skáldsögu sem kom síðan út í 10 eintökum.“

Sagnalistin þjálfar upp samúð

Guðrún Eva segist ekki hafa getað annað en velt fyrir sér tilgangi bókmennta þegar hún byrjaði að skrifa. „Á fyrstu árunum var ég eiginlega kvalin af þessu vali mínu, mér fannst  eins og ég ætti að gera meira áþreifanlegt gagn í veröldinni. En vegna þess að þetta var svo sterk köllun, og gat ekki gert annað en að skrifa, þurfti ég að gera þetta upp við mig; að þetta skipti máli og væri ekki neitt tildur. Ég komst að þeirri niðurstöðu, sem mér finnst blasa við núna, að sagnalistin er svo mikilvæg, þetta hefur alltaf fylgt okkur og þetta þjálfur okkur í að setja okkur í spor annarra. Þetta þjálfar í rauninni upp samúð.“

Mynd: RÚV / RÚV
Ávarp Guðrúnar Evu við afhendingu menningarviðurkenninga Ríkisútvarpsins.

Eftir að hún gaf út sína fyrstu skáldsögu fór hún í heimspekinám. Hún var sólgin í hugmyndir og leitaði helst í kenningar Sartre og tilvistarstefnuna og í framhaldinu dróst hún að trúarheimspeki. „Þetta var eitthvað sem ég þurfti að fá útrás fyrir,“ segir hún, „þannig að ég þyrfti ekki að troða hugmyndum í skáldskapinn. Frekar að þær flytu með þannig að lesandinn tæki þannig séð ekki eftir því. Engin persóna þyrfti að vera málpípa neinnar hugmyndar.“

Ekki jafn upptekin af því að vera vitsmunaleg og áður

Nýjustu bækur Guðrúnar Evu, Ástin Texas og Aðferðir til að lifa af, mætti lýsa sem mínímalískum, einkum ef þær eru bornar saman við fyrri verk hennar eins og Yosoy, Allt með kossi vekur og Skegg Raspútíns, sem eru flókin, margbrotin og hugmyndafræðileg verk. Nýju bækurnar endurspegla breytingar sem hafa orðið á áhugasviði höfundarins. „Ég hef ekki lengur gaman af því að vera svona vitsmunaleg. Mér finnst brýnasta verkefnið okkar að vera manneskja. Ég hef mestan áhuga á því núna að fjalla um það,“ segir Guðrún Eva að lokum.

Tengdar fréttir

Tónlist

Guðrún Eva og Bubbi fá menningarviðurkenningar RÚV

Bókmenntir

Ekki til neitt sem heitir venjulegt fólk

Bókmenntir

Bók sem dregur okkur að brún hyldýpis

Bókmenntir

Djúp saga skrifuð af mikilli næmni