Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brunavarnir í ólestri í eldri sumarhúsabyggðum

17.06.2019 - 19:39
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Brunavarnir í eldri sumarhúsabyggðum eru í ólestri, segir fulltrúi í stýrihópi um forvarnir gegn gróðureldum. Flóttaleiðir séu óljósar, aðkoma slökkviliðs erfið og fólk ekki nógu vel upplýst um hættuna. Samgönguráðherra hyggst skoða gagnrýni um að flóttaleiðir vanti í Skorradal.

Gróður er orðinn mjög þurr víða á Vesturlandi og var í síðustu viku var viðbragðsáætlun vegna gróðurelda virkjuð. Einkum veldur áhyggjum hættan á gróðureldum í Skorradal þar sem eldur gæti ógnað heilsu og öryggi fólks en þar er fjölmenn sumarhúsabyggð. 

Lögreglustjórinn á Vesturlandi og oddviti Skorradalshrepp hafa gagnrýnt harðlega skort á góðum flóttaleiðum.

„Þetta er slóði hann er illfær eða  ófær fólksbílum og síðan þarf að koma þarna hringvegur,“ sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Vesturlandi, í fréttum RÚV 12. júní síðastliðinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Skorradalur er tuttugu og fimm kílómetra langur og þar er mikið af trjágróðri. Úlfar segir brýnt að fá veg hringinn í kringum vatnið svo flóttaleiðir séu tryggar í báðar áttir. 

En hverju svarar Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, þessari gagnrýni?

„Fyrst er þetta auðvitað skipulagsmál sem sveitarfélagið þarf svolítið að takast á við síðan í samstarfi við Vegagerðina og aðra að setja slíkar hugmyndir inn á vegaáætlun. Ég hef fullan skilning á því. Ég var bara þarna síðastliðið sumar og vegurinn má sannarlaega vera betri. Það er mikið af fólki þarna,“ segir ráðherra.

Sigurður Ingi bendir á að margir þurfa að koma að gerð nýs skipulags.

„Þarna þurfa menn held ég bara að setjast niður og fara að kortleggja nýja áhættu sem menn hafa ekki endilega gert sér grein fyrir að væri fyrir hendi,“ segor Sigurður Ingi. 

Sveitarfélagið hafi óskað eftir vegabótum.

„En til að mynda hugmyndir um hringtengingu eða flóttaleiðir man ég ekki til að hafa séð ekki síðustu árin. Það getur verið að þær séu til einhvers staðar,“ segir Sigurður Ingi.

Hyggst þú eitthvað skoða málið?

„Já, þetta er eitt af því sem ég held að væri bara mjög áhugavert í ljósi þessarar nýju áhættu að velta vöngum. Það þarf auðvitað að skoða það líka heildstætt yfir landið hvort það séu sambærileg svæði sem er ekki ósennilegt. Gömul sumarhúsasvæði eru mörk þessu marki brennd. Menn plöntuðu skógi eins og einginn væri morgundagurinn,“ segir Sigurður Ingi.

Og það er sannarlega raunin í Skorradal. Stýrihópur um gróðurelda hefur síðustu ár unnið að vitundarvakningu um málefnið. Dóra Hjálmarsdóttir, öryggisráðgjafi hjá Verkís, er í stýrihópnum.

„Eldri sumarhúsabyggðir þær hafa ekki verið skipulagðar með tilliti til brunavarna og þar eru málin í ólestri almennt. Þar er mikið um botnlanga. Gróður orðinn þéttur. Ekki hugað að vatnsöflun fyrir slökkvilið. Nú aðkoma slökkviliðs getur verið mjög erfið. Flóttaleiðir eru mjög óljósar og við vitum ekki um örugg svæði. Og fólk er almennt kannski ekki nógu vel upplýst og frætt um þessa hættu,“ segir Dóra. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Stýrihópurinn hefur komið upp vefsíðu þar sem er að finna upplýsingar um forvarnir og viðbrögð.

Dóra bendir á að fjölmargir koma að því að draga úr hættu vegna skógarelda, s.s. stjórnvöld, sveitarfélög, skipulagsyfirvöld, skógræktarfélög, skógræktendur, landeigendur, slökkvilið, félagasamtök og einstaklingar. „Brýnt er að brugðist verði við á öllum stigum þ.e. við setningu reglna um brunavarnir skógar- og sumarhúsasvæða, í uppbyggingu búnaðar slökkviliða og ekki síst skipulagningu brunavarna eldri svæða,“ segir Dóra.

Telur þú að fólki sem er þarna í bústöðum og dvelur þarna í dalnum að því sé hætta búin?

„Ég vona nú ekki ef allir fara að með gát,“ segir Sigurður Ingi.

Dóra hvetur þá sem dvelja á þurru, gróðurmiklu sumarbústaðasvæði til að fara gætilega með eld. 

„Síðan er hægt að bleyta gróður í námunda við húsið en sérstaklega þó að hreinsa gróður frá húsinu. Þannig að sina, gras og runnar vaxi ekki undir húsið. Síðan að klippa runnana í allt að einn og hálfan metra frá húsi. Ef fólk þarf að vera með eld eða heit verkfæri eða vinna eitthvað slíkt, þá ætti fólk að vera með slökkvitæki eða brunaslöngu tiltæka,“ segir Dóra.