
Brunasárin drógu kóalabjörninn Lewis til dauða
Myndskeiði af því þegar kóalabirninum er bjargað hefur verið dreift víða á vefnum síðustu viku. Toni Doherty hljóp inn í brennandi skóginn til þess að bjarga Lewis sem var kominn í ógöngur. Doherty reyndi svo að kæla brunasárin með vatni. Hann fékk svo aðhlynningu á dýraspítala en hann var illa brunninn eftir hrakfarirnar.
„Okkar helsta markmið er velferð dýrsins, svo það var þess vegna sem ákvörðunin var tekin,“ segir í tilkynningu frá Port Macquarie Koala spítalanum þar sem Lewis var meðhöndlaður. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu á vefnum.
Hundruð kóalabjarna hafa drepist í gróðureldunum sem geisa í Ástralíu. Hæsta viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir í suðurhluta landsins. Sex manns hafa látist og meira en 500 heimili hafa brunnið í skógareldunum sem geisað hafa í Ástralíu síðan í september.