Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brugðist við áskorunum með skynsamlegum hætti

13.09.2019 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ríkisstjórnin er að bregðast með skynsömum hætti við þeim áskorunum sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir, sagði forsætisráðherra í umræðu um fjárlagafrumvarp á Alþingi. Þingmaður Viðreisnar segir enga innistæðu fyrir fjárfestingaráformum. 

Forsætisráðherra var fyrst í ræðustól og tónninn í hennar ræðu var eðli málsins samkvæmt nokkurn veginn sá sami og hjá fjármálaráðherra í gær. Hún vísaði þeirri gagnrýni stjórnarandstöðunnar á bug að forsendur fjárlaga væru hæpnar og sagði að frumvarpið væri byggt á þeim gögnum sem nú lægju fyrir, spá hagstofunnar frá því maí. Hún sagði einnig að tekist hafi að búa í haginn á undanförnum árum með því að skila afgangi sem nýtist í efnahagsáskorununum nú.

„Þetta er rétti tíminn til að ráðast í opinberar fjárfestingu þegar kemur að hagstjórninni en ekki síður vegna þess að við erum með verulega uppsafnaða þörf þegar kemur að fjárfestingum hins opinbera, nægir þar að nefna samgöngumálin sem þingmenn hafa rætt en líka mikilvæga innviði á borð við nýjan Landspítala,“ sagði forsætisráðherra.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, fullyrti að ríkissjóður hafi ekki efni á þeim opinberum fjárfestingum sem boðaðar hafi verið. Þá spurði hann forsætisráðherra út í hvort svigrúm væri í fjárlagafrumarpi til að bæta kjör kvennastétta líkt og boðað hafi verið fyrir einu og hálfu ári en ekkert gert í.

„Þetta er ein stærsta ástæðan fyrir þeim kynbundna launamun sem við ennþá búum við og er gríðarlega mikilvægt að rétta úr enda er hér um mikilvægar stéttir að ræða eins og kennara og umönnunarstéttir sem við getum öll verið sammála um að án þeirra getum við ekki verið án. Laun þeirra með hliðsjón af menntun eru einfaldlega ekki réttlát eða sanngjörn þegar við berum saman við hefðbundnar karlastéttir,“ sagði Þorsteinn.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og ferðamálaráðherra, var fyrsti fagráðherrann til að svara spurningum um sinn málaflokk. Hún sagði í sinni ræðu að nýsköpunarstefna verði kynnt á næstu vikum og að til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina verði varið tæpum tíu milljörðum, sem sé aukningum rúmar 640 milljónir. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði meðal annars að aldrei hafi meiri fjármunir farið í löggæslu en undanfarin ár. Hins vegar væri gerð aðhaldskrafa upp á um tvö hundruð milljónir, sem næmi um einu prósenti.

En umræðan á Alþingi heldur áfram í dag þar sem áherslur málefnasviða munu skýrast nokkuð eftir því sem fram vindur. 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir