Brúðuleikhús sem er bannað börnum

Mynd: Rúv / Rúv

Brúðuleikhús sem er bannað börnum

23.02.2020 - 09:00

Höfundar

„Brúður geta oft túlkað hugmyndir, hugsanir og tilfinningar sem leikarar geta ekki. Með þeim er heimurinn eiginlega takmarkalaus,“ segir Greata Clough, brúðulistakona og eigandi Handbendis brúðuleikhúss á Hvammstanga. Um síðustu helgi frumsýndi Greta nýjasta verkið sitt, Sæhjarta í Tjarnarbíói. Greta er vön að vinna sýningar fyrir börn en þessi sýning er öðruvísi og meira að segja bönnuð börnum yngri en 16 ára.

„Það er mikið af kynferðislegum tilvísunum og það sem hendir aðalpersónuna er þannig að það er ekki við hæfi barna,“ segir Greta. Sæhjarta er einleikur þar sem Greta notar töfra brúðuleikhússins til þess að hjálpa sér að segja söguna. Í verkinu endurskapar hún og endurvekur gömlu sagnirnar um urtur sem komu á land, fóru úr selshamnum og bjuggu meðal manna. 

Rætt verður við Gretu í Landanum í kvöld. 

Aðkomukona líkt og urturnar

Greta er fædd og uppalin í Vermont í Bandaríkjunum þar sem rík hefð er fyrir brúðuleikhúsi. Hún lærði í Lundúnum og starfaði lengi í leikhúsum þar en flutti fyrir nokkrum árum síðan til Hvammstanga með Sigurði, manninum sínum, sem er forstöðumaður Selaseturs Íslands. Það kemur því kannski ekkert á óvart að þjóðsögur um seli hafi veitt henni innblástur.

„Þessar sögur eru vel þekktar á Írlandi, Skotlandi og Norðurlöndunum. Mig langaði líka að segja sögu af konu sem er svolítið utangarðs í samfélaginu,“ segir Greta og kveðst að einhverju leyti samsama sig við urturnar sem komu á land og bjuggu meðal manna. 

„Ég held að allir sem flytja í annan menningarheim upplifi það að vera svolítið til hliðar. Jafnvel í þessu yndislega samfélagi hér á Hvammstanga sem hefur tekið mér afar vel þá finn ég fyrir þessu. Að vera ekki alltaf alveg með á nótunum af því reynsluheimar fólks eru ólíkir.“ 

Um 200 sýningar í fyrra

Á Hvammstanga stofnaði Greta brúðuleikhúsið Handbendi sem hefur sett upp fjölmargar sýningar hér heima og erlendis á síðustu misserum. „Í fyrra vorum við held ég með um 200 sýningar í Evrópu.“ segir Greta og bætir því við að það sé tvennt ólíkt að vinna sem brúðulistakona á Hvammstanga og í Lundúnum. 

„Í Lundúnum var ég með hóp af fólki í kring um mig. Ég var með hönnuði, leikara, sviðsstjóra og ég veit ekki hvað. En hér er ég meira og minna eins míns liðs. Sem gefur mér mikið frelsi en veldur líka miklu álagi.“ Það er kannski þess vegna sem sjálf brúðugerðin hefur þróast í þá átt hjá Gretu að brúðurnar eru nú einfaldari og auðveldari í smíðum. 

„Brúðurnar í þessari sýningu eru til dæmis mjög einfaldar. Sumar næstum því bara fundnir hlutir. Í því felast líka töfrarnir og þar spilar ímyndunarafl áhorfandans stórt hlutverk.“