Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brottvísun Maní og fjölskyldu stendur enn

18.02.2020 - 14:40
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV
Enn stendur til að vísa Maní Shahidi, 17 ára transpilti frá Íran, og fjölskyldu hans úr landi. Þetta fékk lögmaður fjölskyldunnar Claudie Ashonie Wilson, staðfest hjá lögreglu í dag. Til stóð að vísa þeim úr landi aðfaranótt mánudags en á sunnudagskvöld var Maní lagður inn á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans vegna alvarlegrar vanheilsu.

Eins og staðan er núna, þá verður þeim vísað úr landi um leið og Maní verður ferðafær, segir Claudie. Hún hefur ítrekað óskað eftir svörum um stöðu málsins og bárust þau í dag. Fjölskyldan hefur óskað eftir alþjóðlegri vernd hér á landi. Það var fyrst eftir að þau fluttu hingað til lands sem Maní sagði foreldrum sínum að hann væri trans. Mótmælendur vilja að tekið verði tillit til viðkvæmrar stöðu hans við afgreiðslu málsins hjá yfirvöldum. 

Lögmaður óskar eftir skýringum

Claudie hefur óskað eftir skýringum frá kærunefnd útlendingamála vegna afgreiðslu á erindum Maní, sem hafi í desember óskað eftir frestun réttaráhrifa brottvísunar og til vara að málið verði tekið upp aftur. Aðeins kom svar við fyrri beiðninni og var það neikvætt. Maní hafi ekki enn fengið svar við beiðni sinni um endurupptöku og því verði þau að fara úr landi áður en svar berst. Lögmaðurinn telur það ekki reglum samkvæmt að svara aðeins öðru erindinu því að hitt var til vara og að það hafi verið gerð mistök við afgreiðslu málsins. 

Mynd með færslu
Claudia Ashonie Wilson, lögmaður Maní og fjölskyldu. Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV

Til stendur að vísa fjölskyldunni til Portúgal, en þangað komu þau fyrst á leið sinni frá heimalandinu. Maní óttast mjög að verða sendur til Írans frá Portúgal.

Mynd með færslu
Frá mótmælunum í dag. Mynd: Sólveig Klara Ragnarsdóttir - RÚV

Mótmæltu við ráðuneyti í dag

Um hundrað manns komu saman við dómsmálaráðuneytið í dag og afhentu 8.000 undirskriftir í mótmælaskyni við það að fjölskyldunni verði vísað úr landi. Fréttirnar um að brottvísuninni hafi ekki verið frestað bárust á meðan fólkið mótmælti og segir Elínborg Harpa Önundardóttir að fólk hafi orðið sorgmætt og reitt og að margir hafi farið að gráta við tíðindin. Foreldrar Maní, Shokoufa Shahidi og Ardeshir Shahidi, voru meðal þeirra sem voru við dómsmálaráðuneytið og sögðu í samtali við Sólveigu Klöru Ragnarsdóttur, fréttamann, áður en lögmaðurinn fékk þær fréttir að staðan væri óbreytt, að þau vonuðust eftir því að málið fari þeim og syni þeirra í hag.

Segir stöðuna mikið álag á ungan dreng

Þorbjörg Þorvaldsdóttir var ein mótmælenda í dag. Hún vill að Maní fái að njóta vafans og vernd hér á landi. „Hann er í mjög jaðarsettum hópi, í mjög viðkvæmri stöðu. Transbörn, sem að eru ekki flóttabörn eru í mjög viðkvæmri stöðu til að byrja með, og þegar þú bætir stöðu flóttamanns ofan á það, eða stöðu hælisleitanda, þá er þetta virkilega mikið álag á ungan dreng.“