Eins og staðan er núna, þá verður þeim vísað úr landi um leið og Maní verður ferðafær, segir Claudie. Hún hefur ítrekað óskað eftir svörum um stöðu málsins og bárust þau í dag. Fjölskyldan hefur óskað eftir alþjóðlegri vernd hér á landi. Það var fyrst eftir að þau fluttu hingað til lands sem Maní sagði foreldrum sínum að hann væri trans. Mótmælendur vilja að tekið verði tillit til viðkvæmrar stöðu hans við afgreiðslu málsins hjá yfirvöldum.
Lögmaður óskar eftir skýringum
Claudie hefur óskað eftir skýringum frá kærunefnd útlendingamála vegna afgreiðslu á erindum Maní, sem hafi í desember óskað eftir frestun réttaráhrifa brottvísunar og til vara að málið verði tekið upp aftur. Aðeins kom svar við fyrri beiðninni og var það neikvætt. Maní hafi ekki enn fengið svar við beiðni sinni um endurupptöku og því verði þau að fara úr landi áður en svar berst. Lögmaðurinn telur það ekki reglum samkvæmt að svara aðeins öðru erindinu því að hitt var til vara og að það hafi verið gerð mistök við afgreiðslu málsins.