Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Brotnar rúður, fokin þök, skemmd ökutæki og ónýt gata

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Kostnaður fólks, fyrirtækja og stofnana vegna tjóns á eignum og mannvirkjum eftir óveðrið á föstudag hleypur á hundruðum milljóna króna. Tryggingafélögum hafa borist hátt í 200 tilkynningar og þær eru enn að berast. Mest var tjónið á Reykjanesi, Suðurlandi og Vesturlandi.

Miklar skemmdir við sjóinn í Reykjanesbæ

Óveðrið sem skall á landið á föstudag olli gífurlegu tjóni á mannvirkjum og eignum. Í Reykjanesbæ flettist malbik af Ægisgötu þegar sjóvarnargarður grýttist upp og gríðarstórir grjóthnullungar gengu á land á golfvellinum. Gatan er nánast ónýt og segir Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar, að enn frekari skemmdir hafi komið í ljós á sjóvörnunum. Svonefndur Skessuhellir er stórskemmdur, sem og lýsing á göngustíg og stígurinn sjálfur. Málið er nú komið til Vegagerðarinnar og hefur Reykjanesbær óskað eftir fundi með þeim til að kostnaðarmeta viðgerðirnar, sem hlaupa á milljónum. 

Í Vestmannaeyjum skemmdist líka mikið í storminum. Bæjarstjórnin þar hittist í dag til að taka ákvörðun um næstu skref, meðal annars hvort og þá hvernig báturinn Blátindur, sem sökk í höfninni, verður hífður upp. 

Holskefla tilkynninga til tryggingafélaga

Fréttastofa hafði samband við fjögur tryggingafélög, VÍS, Sjóvá, TM og Vörð. Svör þaðan voru þau að tjónatilkynningar eftir veðrið séu enn að berast, en eru nú þegar orðnar hátt í 200 talsins. Flestar eru tilkynningarnar frá Reykjanesi, Suður- og Vesturlandi, sem og af höfuðborgarsvæðinu. Þær eru mikið til vegna tjóns á fasteignum almennt, fokin þök, þakskífur, klæðningar, brotnar rúður, skemmdir á ökutækjum og hjólhýsi sem fuku. 

Enn hefur ekki verið farið í að taka saman kostnaðinn, en ljóst er að hann hleypur á hundruðum milljóna.