Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Brotið, krotað og kúkað í náttúruperlu

30.05.2019 - 19:03
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Hellirinn Leiðarendi í landi Hafnarfjarðar er stórskemmdur vegna ágangs ferðamanna. Búið er að brjóta nánast alla dropsteina úr hellinum, krota á viðkvæma veggi hans auk þess sem fólk hefur gengið örna sinna í hellinum. Sérfræðingur í hellarannsóknum segir að alltof margt fólk hafi heimsótt hellinn á undanförnum árum, og að stýra verði umferðinni.

Leiðarendi er tæplega 1.000 metra langur hraunhellir skammt frá höfuðborgarsvæðinu. Hellirinn er í landi Hafnarfjarðar, en stendur á þjóðlendu. Hellirinn uppgötvaðist ekki fyrr en um 1990, en á síðustu árum hefur umferð um hann aukist mikið.

„Hann hefur drabbast niður. Alveg að ósekju. Hann átti ekkert að drabbast niður,“ segir Árni B. Stefánsson, formaður verndunarnefndar Hellarannsóknafélags Íslands, og einn af stofnendum félagsins.

Hvers vegna hefur hann drabbast niður?

„Vegna óhefts aðgangs fólks,“ segir Árni.

Ekkert látið í friði

Við hellismunnann hefur gróður látið mikið á sjá. Það sem er þó einna mest áberandi er að tugir dropsteina sem finna mátti víða um hellinn hafa nánast allir verið brotnir, jafnvel þótt Árni hafi komið upp keðjum víða um hellinn fyrir um áratug til þess að reyna að vernda steinana.

„Við sjáum hérna dropstein. Þeir voru hérna nokkrir. Þessi var að minnsta kosti svona hár 2007. Svo voru hérna steinar við hliðina þannig að ég ákvað að setja upp þessa keðju til að verja þá,“ útskýrir Árni þar sem hann stendur við brotinn stein.

Það hefur ekki dugað til?

„Nei. Svo fór ég einhvern tímann hérna um. Og þá sá ég eitthvað hvítt þarna upp frá og þá hafði einhver kúkað og lagt þetta hvíta ofan á afurðina,“ segir Árni.

Leiðarendi dregur nafn sitt af því að fyrir 100 til 200 árum villtist lamb inn í hellinn og drapst innarlega í honum. Beinagrindin hefur ekki fengið að liggja óhreyfð. „Nei því miður. Það er búið að færa þetta mjög mikið úr lagi og höfuðkúpan var einhvern tímann tekin, en henni var síðan skilað aftur, til allrar hamingju. Þannig að þetta eru upprunalegu beinin að mestu leyti en dálítið úr lagi færð. Fólk virðist bara ekki geta séð svona í friði.“

Á stórum hluta hellisins er mjög sérstæð húð á veggjum, sem sérstakar örverur mynda. Þessi húð hefur hins vegar ekki verið látin í friði, því búið er að krota í hana alla.

„Þetta er bara eins og í undirgöngum í úthverfi stórborgar. Þar sem engin vöktun er skrifar fólk nöfn sín, graffíti, myndir eða Guð má vita hvað,“ segir Árni. „Það er bara ósköp að sjá þetta. Fólk á ekki að snerta þessa veggi. Og þetta örverulífríki er einstakt og þetta er mjög sérstakur staður í hraunhellum á Íslandi. Þetta var algjörlega ósnortið um aldamótin. Fyrsta veggjakrotið kom hérna svona 2006 eða 2007 og síðan varð bara sprenging í ferðamennskunni og um leið í veggjakrotinu.“

Umtalsverðar fjárhæðir

Á þeim tæpu tveimur tímum sem fréttastofa var í hellinum komu hátt í tuttugu manns í hann. Árni segir að hundruð þúsunda hafi heimsótt hann á undanförnum árum, meðal annars á vegum ferðaþjónustufyrirtækja.

„Það voru teknar 10-15 þúsund krónur fyrir ferðina. Og það er alveg hægt að reikna það. 100 sinnum 10-15 þúsund sinnum 10 ár sinnum 365. Þetta eru margir milljarðar sem hellirinn hefur halað inn fyrir samfélagið og fyrir þessi ferðaþjónustufyrirtæki. Þetta eru mjög umtalsverðar fjárhæðir,“ segir Árni og á þar við fjárhæðir sem ekki hafa verið nýttar til þess að vernda hellinn.

Árni segir að það gangi ekki að leyfa frjálst og óheft aðgengi að hraunhellum á borð við Leiðarenda - þeir séu einfaldlega of viðkvæmir. Nauðsynlegt sé að fá rekstraraðila að hellinum og umferðarstýringu.

„Ég get ekki séð að fólk eigi það skilið að koma í hellinn. Hvaðan kemur réttur fólks til þess að halda áfram að troða þennan helli niður? Ég get ekki séð þann rétt. Og ég er farinn að líta þannig á að náttúruundur af þessari stærðargráðu og mikilvægi eigi að hafa einhvers konar réttindi eins og mannréttindi, en í þessu tilfelli náttúruréttindi. Þannig að það eigi að vera óheimilt að riðlast á því alveg óheft.“

Árni segist hafa rætt málið við forsvarsmenn Hafnarfjarðarbæjar, sem enn hafi ekkert gert til að vernda hellinn.

„En ég get ekki séð betur en að ferðaþjónustan skuldi okkur tugi eða hundruð milljóna til að endurheimta landgæðin sem þeir hafa tekið.“

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV