Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brotaþolar fái aukna aðild að málum sínum

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Þolendur í kynferðisbrotamálum fá meiri aðild að dómsmeðferð í málum sem þá snerta, samkvæmt tillögum stýrihóps um úrbætur í kynferðisofbeldismálum. Tillögurnar voru kynntar á málþingi í Háskólanum á Akureyri í dag.

Lagt er til að brotaþolum verði veitt aðild að málum svo framarlega sem það skaði ekki rannsóknarhagsmuni. Í Finnlandi og Svíþjóð hafa þolendur sterkari stöðu í málum sínum en hér á landi. Í Noregi, Danmörku og á Íslandi hafa þolendur réttarstöðu vitnis.

„Brotaþolar í rauninni hafa ekki aðild að sakamálinu. Málið er á milli ríkisins og sakbornings. Við létum gera úttekt á þessu sem Hildur Fjóla Antonsdóttir vann fyrir okkur þar sem var gerður samanburður yfir Norðurlöndin og svo greining á upplifun brotaþola í réttarkerfinu. Það kemur í ljós að mörgum brotaþolum finnst þetta mjög skrýtið að þeir séu í rauninni ekki aðilar að því sem þeir upplifa sem sitt eigið mál, heldur vitni,“ segir Halla Gunnarsdóttir,  ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og formaður stýrihópsins.

Fólk þarf að geta treyst kerfinu

Löng forsaga er að tillögunum. Þær ganga út á að brotaþolar fá stöðu innan mála sem veitir þeim aukið aðgengi að upplýsingum, möguleika á meiri þátttöku fyrir dómi og fá að bregðast við atriðum í skýrslutökum. Halla segir að endurskoðunin sé mikilvægur áfangi í meðferð kynferðisbrotamála. Atriði sem kunna að hljóma eins og algjör smáatriði geta verið lykilatriði í því hvernig nálgast eigi kynferðisofbeldi innan réttarvörslukerfisins. Fólk þurfi að treysta réttarkerfinu þegar á reynir.

„ Réttarkerfið er svolítið annars eðliss heldur en önnur samfélagsleg kerfi eins og menntakerfið og heilbrigðiskerfið sem við þurfum öll að reiða okkur á á einhverjum timapunkti lífs okkar. En réttarkerfið er annars eðliss því við þurftum ekki endilega öll að reiða okkur á það. En ef við þurfum það, þá viljum við að það virki,“ segir Halla.