Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Bróðir númer tvö“ kvaddur hinstu kveðju

09.08.2019 - 14:20
epa07764031 Nuon Chea's relatives pray as his body is cremated during his funeral procession at a pagoda in Pailin, Cambodia, 09 August 2019. The chief ideologue of the Khmer Rouge regime, which ruled Cambodia from 1975-1979, Nuon Chea died age 93 at the Khmer-Soviet Friendship Hospital in Phnom Penh on 04 August. The Khmer Rouge international tribunal found Chea guilty of crimes against humanity in 2014. He was also found guilty in 2018 of genocide.  EPA-EFE/KITH SEREY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fjölmennt var þegar Nuon Chea, helsti hugmyndafræðingur Rauðu khmeranna í Kambódíu var kvaddur hinstu kveðju í dag. Þeir urðu yfir tveimur milljónum landsmanna að bana á valdatíma þeirra á áttunda áratugi síðustu aldar.

Nuon Chea var kallaður „bróðir númer tvö“. Hann var hægri hönd Pols Pots, leiðtoga Rauðu khmeranna „bróður númer eitt“ og var talinn jafn harðskeyttur og hann. Nuon Chea lést á sunnudaginn 93 ára að aldri.

Hann var í fyrra dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir glæpi gegn mannkyni og aðild að þjóðarmorði. Dómstóll sem settur var á laggirnar til að fjalla um glæpi Rauðu khmeranna komst að þeirri niðurstöðu að hann bæri ábyrgð á þrælkun, kynlífsþrælkun, pyntingum og fjölmörgum illvirkjum öðrum sem framin voru á valdatíma þeirra á árunum 1976 til '79. Nuon Chea sem stundaði laganám á yngri árum sýndi aldrei nein iðrunarmerki en sagði fyrir rétti að sviksamlegum undirmönnum hans hefði verið um að kenna.

Útför Nuons Chea fór fram í Pailin héraði, síðasta landssvæðinu í Kambódíu þar sem Khmerarnir höfðu einhver ítök eftir að þeim var komið frá völdum. Hundruð ættingja og gamalla samherja voru viðstödd þegar lík hans var borið til líkbrennslu. Einn viðstaddra sagði við fréttamann AFP fréttastofunnar að Nuon Chea hafi verið hetjan hans, sannkallaður þjóðernissinni. Fyrir hans tilstilli hefðu Kambódíumenn varist innrás nágrannaþjóðanna.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV