Breska flugfélagið British Airways hefur ákveðið að hætta að fljúga til Kaíró, höfuðborgar Egyptalands, í sjö daga af varúðarástæðum eftir öryggisúttekt. Fyrirtækið segir að ekki verði flogið þangað sem öryggi er talið ábótavant.
Bresk yfirvöld sendu frá sér tilkynningu í gær þar sem varað var við ferðum til Egyptalands vegna aukinnar hættu á hryðjuverkaárásum gegn flugvélum. Árið 2015 sprengdu hryðjuverkamenn rússneska farþegaþotu sem flaug frá hinum vinsæla ferðamannastað Sharm el-Sheikh við Rauðahaf.
Farþegar á Heathrow-flugvelli í Lundúnum sem voru að fara um borð í flug BA til Kaíró í dag fengu tilkynningu um að fluginu hefði verið aflýst og ekki yrði flogið þangað aftur í viku.
Í yfirlýsingu frá flugfélaginu segir að stöðugt sé fylgst með öryggi á áfangastöðum þess og ákveðið hafi verið að hætta flugi til Kaíró í viku á meðan frekari úttekt á stöðunni fer fram. Ekki hefur verið greint frá því hvers vegna var gripið til þessara aðgerða.
Þýska flugfélagið Lufthansa aflýsti flugum til borgarinnar í dag en flogið verður þangað á morgun samkvæmt talsmanni þess.