Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Bríet Í Listasafninu og Soccer Mommy í Gamla bíó

Mynd með færslu
 Mynd:

Bríet Í Listasafninu og Soccer Mommy í Gamla bíó

28.11.2019 - 10:12

Höfundar

Í Konsert í kvöld heyrum við í tveimur ungum konum á Airwaves. Fyrst Bríeti á Airwaves núna í ár í Listasafninu, og svo Soccer Mommy frá Nashville í fyrra í Gamla bíó.

Bríet heitir Bríet ísis Elfar. Hún er fædd 1999, tvítug hæfileikarík stúlka. Hún er fædd í Reykjavík, fór í MH - en var þá löngu byrjuð að spila á gítar og syngja. Hún var bara 15 ára þegar hún kom fyrst fram utan dagskrár á Airwaves.
Eftir að hafa spilað víða, bæði ein og með öðrum fór hún að vinna með Pálma Ragnari Ásgeirssyni, oft kenndum við Stop Wait Go. Í fyrra kom svo út lagið „In too Deep“ og í framhaldinu fór allt á fleygiferð hjá þessari ungu konu, og Pálmi er hennar hægri hönd í flestu sem hún gerir.
Tæpri viku eftir að In too deep kom út fengu hún og Pálmi símtöl og tölvupósta frá stórum plötufyrirtækjum í útlöndum, fyrirtækjum eins og Sony og Universal, sem vildu gera samning við hana sem þá var aðeins 19 ára gömul. Síðan er hún búin að senda frá sér nokkur lög en það á enn eftir að koma stór plata.
Bríet spilaði í Listasafninu á fimmtudeginum á Aiwarves - og með henni var frábært band:
Píanó - Gabríel Örn Ólafsson
Gítar - Daníel Friðrik Böðvarsson
Trommur - Kristófer Nökkvi Sigurðsson

Bandaríska tónlistarkonan Sophie Allison kallar sig Soccer Mommy.
Sophie er kornung eins og Bríet, fædd 1997 í Sviss en ólst upp í Nashville í Tennesse. Hún gekk í lista-menntaskóla þar sem hún lagði stund á gítarleik og spilaði í Swing-bandi.
Hún byrjaði sex ára gömul að spila á gítar og fór snemma að búa til lög. Og fyrir fjórum árum fór hún að senda inn á Band-camp lög undir nafninu Soccer Mommy, en þá var hún á leiðinni í Háskóla í New York í þeim tilgangi að læra um músík-bransann. Og í New York kom hún fyrst fram opinberlega undir nafninu Soccer Mommy og skömmu síðar var hún komin með plötusamning við útgáfu sem heitir Fat Possum. Hún hætti í skólanum eftir 2 ár og fór aftur heim til Nashville til að einbeita sér að tónlistar-lífinu.
Fyrsta stóra platan hennar undir nafninu Soccer Mommy kom út 2016, heitir For Young Hearts, önnur platan, Collection, kom 2017, og sú þriðja og nýjasta, Clean, kom í fyrravor. Og svo kom hún og spilaði á Iceland Airwaves í nóvember í fyrra í Gamla bíó.

Undir lok þáttarsins heyrum við svo nokkur lög með The Band frá Woodstock hátíðinni einu sönnu 1969.