Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Breytti embættinu og gerði það pólitískara

01.01.2016 - 17:11
Mynd fengin af vefsíðu þingflokks Bjartrar framtíðar.
 Mynd: Copyright: Hordur Sveinsson - Björt framtíð
Ólafur Ragnar Grímsson hefur breytt forsetaembættinu meðan hann hefur gegnt því og það er eitthvað sem verður að taka mið af þegar kemur að framboðum fyrir komandi forsetakosningar. Þetta segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. Hann segir að fróðlegt verði að fylgjast með því hvað forsetinn taki sér fyrir hendur þegar hann yfirgefur Bessastaði.

„Þetta eru stórtíðindi. Forseti er búinn að sitja í 20 ár þannig að þetta eru í raun og veru tímamót. Ég get ekki sagt að það komi mér á óvart að hann taki þessa ákvörðun. Ólafur hefur breytt embættinu og þróað það áfram, gert það pólitískara. Það þýðir væntanlega að forsetakosningar og –framboð taka örugglega mið af þeirri breytingu sem hefur orðið. Það verður nýtt fyrir okkur," segir Óttarr.

Óttarr segist ekki hafa sterka afstöðu til þess hvort breytingin á forsetaembættinu sé til góðs eða slæms. „Ég held að það að Ólafur hafi beitt því að vísa málum til almennings hafi bæði breytt afstöðu til forsetaframboðsins en líka aðkomu almennings að stórum og mikilvægum málum. Ég held að sú breyting, óháð forsetaembættinu, sé komin til að vera."

Ólafur Ragnar hefur verið virkari þátttakandi í stjórnmálum, sérstaklega utanríkisstjórnmálum, en forverar hans, segir Óttarr og telur að sitt sýnist hverjum í því. „Það er bara breytt staða sem Ólafur er búinn að formgera." Hann segir að það sé nokkuð sem hvaða frambjóðandi til forsetaembættisins sem er þurfi að taka afstöðu til.

„Þrátt fyrir að ákvörðunin komi ekki á óvart erum við að melta og átta okkur á þessari stöðu. Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu, og ekki síður því hvað Ólafur gerir sjálfur þegar hann er kominn af Bessastöðum," segir Óttarr.