Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Breytt hernaðarógn á Norður-Atlantshafi

27.02.2020 - 21:28
Mynd: Wikipedia / Wikipedia
Hernaðarógn á Norður-Atlantshafi hefur breyst frá dögum kalda stríðsins, segir bandaríski flota- og herfræðingurinn Magnus Nordenman. Rússneski flotinn ætli sér ekki lengur að ráðast með herskipum, kafbátum og flugvélum inn á flutningaleiðir heldur nota langdrægar stýriflaugar úr meiri fjarlægð.

Atlantshaf enn hernaðarlega mikilvægt

Nordenman sagði í fyrirlestri á vegum Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál í dag, að Norður-Atlantshaf væri enn mjög hernaðarlega mikilvægt. Hann er höfundur bókar sem kom út í fyrra sem ber heitið The New Battle for the North Atlantic – Emerging Naval Competition with Russa in the Far North, Nýja orrustan um Atlantshaf, vaxandi flotasamkeppni við Rússa á norðurslóðum. Nordenman er þekktur sérfræðingur á sviði öryggismála.

Breyttar áætlanir

Í kalda stríðinu var gert ráð fyrir árásum Rússa á flutningaleiðir á Norður-Atlantshafi, kæmi til átaka. Þetta hefur breyst, segir Nordenman. 

,,Það sem hefur breyst er að rússneski flotinn er alltof lítill til að hindra siglingar á Norður-Atlantshafi. Ef litið er til herafla hans og svo hernaðaráætlana þá er helsta ógnin frá mun smærri flota kafbáta sem er mun háþróaðri og hefur sýnt sig að geta skotið á loft mjög langdrægum stýriflaugum sem geta hæft skotmörk um alla Norður-Evrópu."

NATO ríki bregðast við

Nordenman segir að NATO-ríki séu nú að byggja upp flotastyrk að nýju til að takast á við þessa ógn. Athygli Bandaríkjanna beindist frá Evrópu og Atlantshafinu eftir kalda stríðið og margir í Evrópu hafa dregið í efa vilja núverandi stjórnvalda í Washington að verja álfuna. Nordenman segir að líta verði á aðgerðir og viðbúnað Bandaríkjamanna.

,,Haft er að orðtaki í Ameríku að stefnan sé það sem njóti fjárstuðnings. Ef það er haft í huga að evrópska fælingarfrumkvæðið kostar fimm milljarða dala árlega og það greiðir fyrir veru Bandaríkjamanna í Evrópu og svo viðhald á grunnstoðum í Evrópu. Það hefur vaxið úr fimm hundruð milljónum í upphafi í fimm milljarða nú. Ef stefna er það sem fær fjármögnun þá er þetta sannarlega stefnan."
 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV