Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Breytt hegðun hjá hnúfubökum

17.03.2020 - 14:29
Mynd: Arnór Sigurgeir Þrastarson / Arnór Sigurgeir Þrastarson
Háttsemi hnúfubaka gæti verið að breytast. Fleiri hnúfubakar eru hér við land en venja er á þessum árstíma. Hnúfubakurinn sem rak í Reynisfjöru í liðinni viku hefur ekki sést hér við land áður. Hvalaskoðunartímabilið byrjaði vel hjá Norðursiglingu á Húsavík en nú er staðan önnur.

Hvalreki í Reynisfjöru í síðustu viku gefur til kynna að háttsemi hnúfubaka gæti verið að breytast. Venjulega eru fáir hnúfubakar við Íslandsstrendur á þessum árstíma en það virðist vera að breytast því töluvert hefur borið á þeim upp á síðkastið. Þetta kemur fram á vef Háskóla Íslands.

Meira aðgengi að fæðu 

Edda Elísabet Magnúsdóttir, nýdoktor við Háskóla Íslands, hefur rannsakað hræið af hvalnum sem rak í Reynisfjöru. Hún segir að á þessum árstíma ættu hnúfubakar að vera á leið hingað frá æxlunarstöðvum sínum, til dæmis í Karabíska hafinu og við Grænhöfðaeyjar. Þó séu teikn á lofti um að farmynstur hvalanna sé að breytast og sumir þeirra haldi til við landið allan ársins hring. Hún segir líklegt að aukið aðgengi að fæðu á norðlægum slóðum sé ástæðan fyrir því að þeir dvelja hér lengur en áður. 

 

Mynd með færslu

Sporðblaðkan greinir þá í sundur

Hnúfubakar hafa hver sitt fingrafar ef svo má segja því að hægt er að þekkja þá í sundur á sporðblöðkum þeirra. Því er til gagnabanki með myndum af sporðblöðkum þeirra hvala sem hafa sést hér við land. Í samtali við fréttastofu segir Edda að þennan hval sé ekki að finna í gagnagrunninum og hann hafi því ekki sést hér áður. Frést hafi af stórum hópi hnúfubaka úti fyrir Vík og líklega hafi þessi hvalur verið í þeim hópi. 

„Það er nokkuð af loðnu á miðunum og mikið hefur sést til hnúfubaka við suður- og vesturströndina síðustu daga“ segir Edda. Einnig virðist sem þeir hvalir sem sjást hér á þessum árstíma hafi ekki sumarsetu hér heldur eigi leið hjá, annað hvort norður á fæðustöðvar eða suður á æxlunarstöðvar. 

Hnúfubökum snarfjölgað

Hörður Sigurbjarnarson, skipstjóri og einn af eigendum Norðursiglingar á Húsavík, tekur undir orð Eddu. Í hans huga leiki enginn vafi á að háttsemi hvalanna sé að breytast. Norðursigling fagnar aldarfjórðungsafmæli í ár og Hörður segir að hrefnum hafi fækkað stórlega og hnúfubökum snarfjölgað á þessum tíma. Þá staldri hnúfubakarnir lengur við á haustin og komi fyrr á vorin. Þetta eigi bæði við á Skjálfanda og í Eyjafirði. 

Mynd með færslu

Tímabilið byrjaði mjög vel

Norðursigling var opnuð í febrúar eftir vetrarlokun og strax í fyrstu ferð sáust 4-5 hnúfubakar, langreyðar og mikið höfrungalíf. Hörður segir að tímabilið hafi því hafa byrjað vel og bókanir verið álíka margar og á síðasta ári. Staðan sé hins vegar gjörbreytt eftir að COVID-19 fór að breiða úr sér. Áætlað var að sigla tvær ferðir á dag en nú gæti stefnt í að hætta þurfi ferðum á meðan faraldurinn gengur yfir.