Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Breytir auðvitað heilmiklu í lífi íþróttamanns“

Mynd: RÚV / RÚV

„Breytir auðvitað heilmiklu í lífi íþróttamanns“

30.03.2020 - 19:15
Hallbera Gísladóttir, landsliðskona í fótbolta, telur það líklegast að EM kvenna í fótbolta verði frestað til ársins 2022. Mótið á að fara fram sumarið 2021, en dagskráin er hins vegar orðin þétt þá.

EM karla sem átti að vera í sumar verður haldið frá 11. júní til 11. júlí á næsta ári og Ólympíuleikarnir hefjast svo 24. júlí. EM kvenna ætti svo að vera ofan í hvort tveggja, því EM ætti að byrja 7. júlí.

„Ég viðurkenni að ég hélt aðeins í vonina þegar EM karla var frestað um ár, að við myndum kannski bara spila eftir það mót en það er svona þegar Ólympíuleikarnir eru líka komnir sama sumarið, að þá, ég held svona, ég myndi halda að eðlilegast væri að fresta okkar móti um eitt ár líka,“ segir hún. 

En hvaða áhrif hefur það fyrir Hallberu og aðrar landsliðskonur ef EM verður fært til 2022?

„Í fyrsta lagi erum við ekki komnar á mótið þannig að við þurfum náttúrulega að byrja á að tryggja okkur þangað. En auðvitað höfum við sett stefnuna á að fara þangað. Það breytir auðvitað heilmiklu í lífi íþróttamanns þegar planið frestast um ár, þú veist bæði, það er aldurinn, hann gæti farið að segja til sín en maður svo sem veit það ekki. En á móti að þá kannski, við eigum mikið af efnilegum stelpum í U-19 sem verða þá árinu eldri þannig að kannski myndi það henta okkur ágætlega, ég veit það ekki,“ segir Hallbera.

Hallbera reynir eins og annað íþróttafólk að halda sér í formi við krefjandi aðstæður.

„Maður er mættur hérna með einhver svona hlaupavesti með GPS-kubb á bakið og maður getur ekkert svindlað sko. Það eru bara útihlaup og einhverjar heimaæfingar í stofu, þetta er bara, ég ætla bara að vera hreinskilin, þetta er hundleiðinlegt en ég held að flestir íþróttamenn þeir eru hvort sem er vanir að það er ekki alltaf skemmtilegt á æfingum. En ég, þetta er helvíti þreytandi til lengdar en svona er þetta bara,“ segir Hallbera Gísladóttir.