Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Breytingarnar skapi tækifæri fyrir Ísland

01.04.2014 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að þó svo að fregnir af loftlagsbreytingum séu alvarlegar skapi breytingarnar tækifæri fyrir Íslendinga. Hér verði hægt að auka til muna matvælaframleiðslu og flytja úr landi.

Forsætisráðherra segir að niðurstöður skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna séu afdráttarlausar. „Því miður í samræmi við dekkri spár sem menn hafa verið að skoða á undanförnum árum og áratugum. Augljóslega er þetta á heildina litið neikvætt en í því felast þó tækifæri til að bregðast við þróuninni og bregðast sem best við henni og það eru ekki hvað síst tækifæri sem Ísland hefur.“

Sigmundur Davíð vitnar til bókar eftir Laurence C. Smith þar sem því er spáð að árið 2050 glími ríki nærri miðbaugi Jarðar við ýmiss konar vandamál en hagsæld verði í átta löndum á norðurslóðum. „Og Ísland var eitt af þessum átta löndum framtíðarinnar. Bent er á að það séu augljóslega að opnast mjög mikil tækifæri á Norðurslóðum varðandi siglingaleiðir, varðandi olíu og gasvinnslu og önnur hráefni og ekki hvað síst til matvælaframleiðslu.“

Gert ráð fyrir að matvælaverð fari hækkandi
Mannkyni fjölgi um þá 300 þúsund manns á dag. Þá sé að verða viðsnúningur í þróun verðs á mat. „Það skortir vatn, orkan verður dýrari, það skortir landrými, þannig að menn gera ráð fyrir því að matvælaverð muni fara hækkandi um fyrirsjáanlega framtíð á sama tíma og það er sífellt meiri þörf fyrir matvælaframleiðslu vegna þess að eftirspurning er að aukast. Þannig að í þessu liggja tvímælalaust mikil tækifæri fyrir Ísland. Við erum að kortleggja þetta,“ segir hann.

Ber ekki Ísland einhverja ábyrgð á losun koltvísýring og gróðurhúsalofttegunda með öðrum þjóðum heims og þurfum við ekki að gera eitthvað í því? „Það er alveg rétt við gerum það en á margan hátt er Ísland auðvitað til fyrirmyndar lika í umhverfismálum,“ svarar Sigmundur Davíð. 

Orkuframleiðsla hér sé líklega sú umhverfisvænasta í heimi. „Og það má kannski segja að okkur beri skylda til að framleiða enn meira af umhverfisvænni orku.“

Þá þurfi að gera betur í því að knýja bíla og skip með endurnýjanlegum innlendum orkugjöfum.