Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Breytingar kosta peninga“

02.07.2019 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson / Karl New - RÚV
Hlutlaus kynskráning í Þjóðskrá Íslands strandar á fjármögnun. Stofnuninni hefur ekki verið tryggt fjármagn til verksins, segir Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands. „Breytingar kosta peninga,“ segir Inga Helga Sveinsdóttir, lögfræðingur stofnunarinnar.

Margrét segir að aðrar breytingar taki gildi um leið og lögin verði birt. Til dæmis verði þá hægt að breyta skráningu sinni úr karlkyni í kvenkyn og öfugt.

Hins vegar þurfi að fara fram breytingar á kerfum Þjóðskrár svo hægt verði að skrá kyn sitt hlutlaust, líkt og ný lög um kynrænt sjálfræði gera ráð fyrir.

Vanti fjármagn til verksins

Inga Helga, lögfræðingur Þjóðskrár, segir að töluverðar breytingar þurfi til að hægt sé að framfylgja nýju lögunum. Hún segir að nauðsynlegar breytingar og uppfærslur séu ekki hafnar þar sem fjármagn vanti til verksins. Forsætisráðuneytið og samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið eigi að tryggja nauðsynlegt fjármagn. Hún segir að breytingarnar séu kostnaðarsamar en gert var kostnaðarmat vegna breytinganna.

„Breytingar kosta peninga og það hefur ekki verið gert ráð fyrir fjármagni til þróunar Þjóðskrár núna á þessu fjárlagaári og það þarf að koma sérstakt fjárframlag til þess að það sé hægt að fara í nauðsynlegar breytingar,“ segir Inga.

Margrét, forstjóri Þjóðskrár, segir að eftir að fjármagn fæst taki aðeins örfáa mánuði að gera nauðsynlegar breytingar á kerfinu.

Hlutlaus skráning stór breyting

Ný lög um kynrænt sjálfræði kalla á margs konar breytingar. Meðal þeirra er umrædd breyting á kerfum Þjóðskrár Íslands. Eftir að þær hafi verið gerðar verði hægt að skrá kyn sitt hlutlaust. Það er stór breyting fyrir kynsegin fólk sem skilgreinir sig utan kynjatvíhyggjunnar, það er að segja, hvorki sem karl né konu, segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna '78.