Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brexit og pólitísk tilvistarkreppa

15.05.2019 - 17:00
Mynd:  / 
Spurningin um langlífi breska tveggjaflokka kerfisins hefur verið stóra spurningin í breskum stjórnmálum undanfarin ár eftir að fyrsta breska samsteypustjórnin um áratugabil sá dagsins ljós 2010. Kosningasigur Íhaldsflokksins 2015 virtist afturhvarf til tveggjaflokka kerfisins en það er hugsanlega ekki allt sem sýnist. Og kannski eru Brexit-vandræðin birtingarmynd tilvistarkreppu í breskum stjórnmálum.

Brexit-óvissan allt um kring

Óvissan um Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, skekur Bretland með margvíslegum hætti. Í viðskiptalífinu streða menn við að fóta sig í hinni algjöru óvissu um nánustu og fjarlægari framtíð. Í stjórnmálunum blasir við þessi pólitíska handvömm stjórnarinnar að koma Brexit á eða frá.

May stefnir á fjórðu atrennu í þinginu

Í byrjun júní ætlar Theresa May forsætisráðherra að gera fjórðu atrennuna til að fá þingið til að samþykkja útgöngusamninginn við ESB þrátt fyrir óvissar horfur. Það er þá eftir Evrópuþingkosningarnar sem hún marglofaði að yrðu ekki haldnar því Bretar væru á leið úr ESB.

May föst í Brexit-foraðinu

Stjórn May hefur undanfarna mánuði virst hanga saman af þeirri einu ástæðu að May er föst í Brexit-foraðinu. Fyrir þriðju atkvæðagreiðsluna lofaði May þingflokknum að fara frá ef þingið samþykkti samninginn en það dugði ekki til. Hvort sem samningurinn verður samþykktur eða felldur á May á hættu afsagnir ráðherra.

Fylkingar með og móti samningnum í flokki forsætisráðherra berast áfram á banaspjótum og enginn til að draga May upp úr Brexit-foraðinu. Á meðan gerist ekkert – henni enn ekki komið frá, eins og andstæðingar hennar hafa hótað mánuðum saman. Og stjórnin springur ekki. En hvort sem samningurinn fer í gegn í júní eða ekki hlýtur að draga þá til tíðinda. Eða svo er haldið.

May hemur stríðandi fylkingar með aðgerðaleysi

May hefur tekist að hemja stríðandi flokksfylkingar með því að láta líta út eins og hún væri að gera eitthvað. Fyrst að hún væri að semja upp á nýtt við ESB sem sagði þó ekkert annað í boði en samninginn. Undanfarið hafa svo fulltrúar Íhaldsflokksins verið í jafn árangurslausum viðræðum við Verkamannaflokkinn.

Daður May við Verkamannaflokkinn ergir hennar eiginn flokk

Og það þó ýmsir framámenn í Íhaldsflokknum vari May hástöfum við Brexit með stuðningi Verkamannaflokksins því þá glataði hún umsvifalaust trausti þingflokksins. Traustið reyndar þegar farið, May er þarna enn af því það er enginn augljós arftaki. Og hugsanlegir arftakar vildu helst að May lyki útgönguþætti Brexit.

Verkamannaflokkurinn í sínum Brexit-vanda

En af hverju tekur Verkamannaflokkurinn þátt í þessum viðræðum sem virðast engu skila? Jú, flokkurinn vill ekki láta kenna sér um að hindra Brexit en hræðist líka að semja við May, leiðtoga á augljósri útleið. Á hinn bóginn hafa ýmsir framámenn í flokknum líst því yfir undanfarið að Verkamannaflokkurinn vilji vera í ESB og bæta það innanfrá.

Líka Brexit-togstreyta þarna og fátt sem bendir til að ríkisstjórn Verkamannaflokksins ætti auðveldara með Brexit. En andstætt Íhaldsflokknum er yfirgnæfandi meirihluti kjósenda Verkamannaflokksins, um 70 prósent, hlynntur breskri ESB-aðild. – Báðir stóru flokkarnir eru því í mesta Brexit-basli, að fara eða vera, fara hvernig, vera hvernig.

Hriktir í tvíflokka-kerfinu

Þetta er nokkuð sögulegt því stjórn landsins hefur í meira en hálfa öld, nokkurn veginn undantekningalaust, verið í höndum annars þessara tveggja flokka. Og það er líka sögulegt að Verkamannaflokkurinn græddi lengi vel ekki áþreifanlega á vandræðagangi Íhaldsflokksins. Nú virðast þó einhverjar fylgissveiflur í gangi, líka hjá öðrum flokkum.

Frameftir vetri var Íhaldsflokkurinn með nokkuð stöðugt forskot, svo jöfnuðust metin. Nú sýnir nýjasta skoðanakönnunin að 34 prósent kjósenda styðja Verkamannaflokkinn, aðeins 25 prósent styðja Íhaldsflokkinn, heil níu prósentustig á milli þeirra. Frjályndir demókratar eru ESB-sinnar, komnir í 15 prósent. Ukip, and-ESB flokkurinn, er aðeins með 4 prósent en Brexit flokkurinn, nýjasta framtak gamla Ukip leiðtogans Nigel Farage, er í tíu prósentum. Græningjar með þriggja prósenta fylgi, nýi ESB-sinna flokkurinn Change UK eitt prósent.

Skekjandi fylgistölur fyrir báða stóru flokkana

Ef hins vegar er hugað að fylgi fyrir Evrópukosningarnar blasa við skekjandi tölur fyrir báða stóru flokkana. Brexitflokkur Farage er í hæstu hæðum, með tæplega 30 prósenta fylgi; rétt ríflega fylgi Ukip í síðustu kosningum, þá undir forystu Farage. Verkamannaflokkurinn í kringum 23 prósent, Íhaldsflokkurinn og frjálslyndir í kringum 13 prósent. Aðrir þar fyrir neðan.

Tilvistarkreppa sem lofar ekki góðu fyrir framtíðina?

Ný heimildamynd um Brexit séð frá Brussel segir heldur neyðarlega sögu um illa undirbúna breska Brexit-viðleitni. Þar segir Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, að Evrópu-afstaða Breta sé ekki einhlít skýring á bresku Brexit-vandræðin. Kjarni breska vandans sé pólitísk tilvistarkreppa. Sannarlega íhugunarefni í ljósi vingulsháttar stóru flokkanna tveggja varðandi Brexit. Og rétt að hafa í huga að samningaviðræður um framtíðarsamband Breta og ESB eru enn ekki byrjaðar.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV