Brexit fyrsta mál nýrrar stjórnar í Lundúnum

Mynd: EPA-EFE / UK PARLIAMENTARY RECORDING UNIT
Elísabet Bretadrottning flutti í dag stefnuræðu nýrrar ríkisstjórnar. Breska þingið kom saman til fyrsta fundar eftir kosningarnar í síðustu viku. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, lagði í kosningabaráttunni höfuðáherslu á útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Hann hamraði á slagorðinu, klárum Brexit, Get Brexit done.  

Mikill meirihluti á þingi

Brexit fyrsta atriðið í stefnuræðunni sem drottningin flutti samkvæmt gamalli hefð. Tryggt yrði að Bretar færu úr Evrópusambandinu 31. janúar.Johnson og stjórn hans hafa 80 þingsæta meirihluta eftir kosningasigurinn í síðustu viku svo það ættu að vera hæg heimatökin að koma stefnumálum stjórnarinnar í gegnum þingið.

Langur loforðalisti

Loforðalisti Johnsons var langur, stórefld heilsugæsla, bættir skólar, harðari refsingar fyrir fyrir alvarlega glæpi, metnaðarfyllsta umhverfislöggjöf veraldar. Ný gullöld blasir við Bretum, sagði Johnson við mikinn fögnuð stuðningsmanna sinna.

Átök framundan um sjálfstæði Skotlands

Viðbúið er að til átaka komi á milli stjórnanna í Lundúnum og Edinborg, en skoska stjórnin hefur krafist þess að fá að halda nýja atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Skoska stjórnin kveðst hafa umboð til þess, 80 af hundraði þingmanna Skota í Westminster séu þingmenn Skoska þjóðarflokksins, SNP. Johnson tekur ekki í mál að leyfa nýja atkvæðagreiðslu.

Boris Johnson í símanum er Ian Blackford talaði

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra skosku stjórnarinnar, hefur staðfest að stjórn hennar fari formlega fram á að efnt verði til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu.Ian Blackford, leiðtogi SNP í Westminster, sagði í umræðum um stefnuræðuna í dag að Skotar hefðu ekki kosið þessa ríkisstjórn. Blackford kom svo auga á að forsætisráðherrann var að skoða farsíma sinn og sagði Johnson lítilsvirða Skota, þetta liti ekki vel út.
 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi