Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Bretar vilja raforku frá Íslandi

11.04.2012 - 18:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Breski orkumálaráðherrann, Charles Hendry, segir í viðtali við vefútgáfu Guardian nú fyrir skömmu að Bretar vilji nýta sér íslenska orku til að flytja rafmagn til Bretlands.

Hendry segir í viðtali við Guardian að viðræður séu þegar hafnar og að íslensk stjórnvöld hafi tekið vel í bón Bretanna. Hann reiknar með því að þær viðræður haldi áfram þegar hann heimsæki landið í maí.  „Við eigum í mjög virkum samræðum við íslensk stjórnvöld," hefur Guardian eftir Hendry. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, staðfesti í samtali við fréttastofu RÚV, að hann hefði átt fund með Hendry í London fyrir hálfu ári síðan og að hann hygðist kynna áhuga erlendra ríkja á að nýta íslenska orku gegnum sæstreng á aðalfundi Landsvirkjunnar á morgun.
Bretar hafa hingað til útvegað sér sjálfir orku en nú virðist útséð með orkugjafa þeirra, olían í Norðursjó er ekki áreiðanleg og þá hafa kol verið bönnuð þar sem þau séu of umhverfismengandi. Bretar verði því að fara á stjá og finna nýja, ódýra orkugjafa. Og Ísland geti boðið uppá slíkt.