Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Bretar kjósa að ganga úr Evrópusambandinu

24.06.2016 - 03:47
epa05386795 A man walks past a LeaveEU sign at a 'Leave.EU Referendum Party' in London, Britain, 23 June 2016. Britons await the results on whether they remain in, or leave the European Union (EU) after a referendum on 23 June.  EPA/HANNAH MCKAY
 Mynd: EPA
Bresku fjölmiðlarnir BBC og ITV fullyrða að breska þjóðin hafi ákveðið að ganga úr Evrópusambandinu þegar eftir á að telja atkvæði í fjórðungi kjördæma. Miklar sveiflur urðu á fylgi fylkinganna í nótt en eftir því sem hefur liðið á hefur forskot þeirra sem vilja út úr ESB aukist.

Afleiðingar niðurstöðunnar eru ófyrirsjáanlegar. Ljóst er að fjárfestar eru óöruggir því gengi breska Sterlingspundsins hefur fallið gríðarlega og ekki verið lægra í yfir þrjátíu ár. Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði um fimm prósent í nótt og hlutabréfavísitölur í Asíu og Ástralíu féllu um þrjú til fimm prósent.

Þá er alveg óljóst hver framtíð David Camerons er í embætti forsætisráðherra. Hann barðist hatrammlega fyrir því að Bretland héldi sér innan Evrópusambandsins en nú er ljóst að hann tapaði þeirri baráttu. Flokksbróðir hans Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri Lundúna, var einn helsti stuðningsmaður þess að Bretar segðu sig úr sambandinu. Teljast verður líklegt að hann sækist eftir því að vera formaður flokksins eftir úrslit næturinnar.

Bretar ganga ekki strax úr sambandinu. Litlu munar í þjóðaratkvæðagreiðslunni og því alveg óljóst hvort hún sé bindandi fyrir þingið. Þar á eftir að ræða um atkvæðagreiðsluna og framhaldið. Þar á eftir tekur við löng samningalota við Evrópusambandið um útgöngu. Breskir fjölmiðlar tala um að það gæti tekið allt að tvö til þrjú ár.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV