Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bretar hreinsi drepandi olíu úr Seyðisfirði

20.08.2019 - 19:15
Mynd: Skjáskot / Skjáskot
Svartolía lekur enn úr breska tankskipinu El Grillo sem sökkt var í Seyðisfirði fyrir 75 árum. Olían drepur fugla í firðinum og enn má sjá gamla olíu í fjörugrjóti. Bæjaryfirvöld ætla að biðja Breta um hjálp við að stöðva enn frekari mengun.

Í febrúar árið 1944 grönduðu þýskar sprengjuflugvélar breska tankskipinu El Grillo á Seyðisfirði. Það var fullt af olíu sem lak í fjörðinn og mengaði um langt skeið. Þegar fjörugrjóti er velt við blasir við olíudrulla, lykt gýs upp og enn má sjá slettur á steinum. Í tvígang hefur verið unnið að því að losa olíu úr skipinu, síðast með borun árið 2001. Þá var talið að tvö þúsund tonn væru í skipinu en aðeins fundust 90 tonn. Greinilegt er að enn lekur og í sumar náði Hlynur Vestmar Oddsson kajakræðari myndum af brákinni og einnig olíublautum æðarkollum illa höldnum. Ungarnir drápust í olíunni en fáir urðu varir við það því aðrir fuglar átu þá um leið.  

Yfirhafnarvörðurinn á Seyðisfirði hefur áhyggjur af málinu. „Þetta virðist hafa verið sérstaklega slæmt í sumar. Eftir því sem sjórinn hlýnar þeim mun meira kemur upp og olían þarf litla hitabreytingu til þess að fara af stað. Væntanlega er skipið að skemmast meira og meira líka, það er náttúrlega búið að liggja þarna í 75 ár. Svo berst þetta með straumnum hér inn fjörðinn og fer í fjörurnar og í fuglana. Þetta er mjög alvarlegt. Ungfuglinn og ungarnir hjá æðarfuglinum virðast ekki þola olíuna. Eldri fuglinn virðist þola þetta betur einhverra hluta vegna en ungfuglinn hefur drepist í hrönnum út af þessari mengun á þessu ári,“ segir Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður og formaður bæjarráðs.

Hann vill að lagðar verði út flotgirðingar yfir flakinu áður en olían byrjar að pípa upp næsta sumar. Ekki sé vitað með vissu hve mikil olía sé eftir í flakinu. „En ég hef heyrt talað um 14 tonn sem er býsna mikið í stóra samhenginu. Við ætlum að hafa samband við breska sendiráðið og athuga hvort Bretar vilji taka einhvern þátt í þessari hreinsun. Þegar á botninn er hvolft þá er þetta skip þeirra, þeir áttu skipið og olíuna sem fór niður,“ segir Rúnar.