Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Breskir blaðamenn agndofa yfir stórtónleikum Bjarkar

Mynd með færslu
 Mynd: Björk Guðmundsdóttir

Breskir blaðamenn agndofa yfir stórtónleikum Bjarkar

20.11.2019 - 15:10

Höfundar

Tónleikar Bjarkar Guðmundsdóttur í O2-höllinni í Lundúnum fá glimrandi dóma í bresku tónlistarpressunni. Listakonunni tekst með yfirþyrmandi fallegu sjónarspili að blása lífi í gríðarstóra og öllu jafna líflausa höllina.

Metnaðarfull tónleikaröð Bjarkar Guðmundsdóttur, Cornucopia, hefur vakið mikla athygli um heim allan. Í gærkvöld kom röðin að Lundúnabúum að fá að njóta þeirrar margslungnu sýningar sem Björk býður upp á tónleikunum.

Tónleikarnir eru mikið sjónarspil og eru áhrifin slík að gagnrýnandi Independent, sem gefur þeim fullt hús stiga, hefur aldrei upplifað annað eins í jafn ólífrænu rými og O2-höllin er. „Íslenska listakonan blæs höfugu og sleipu lífi í berangurslegasta tónleikarými Lundúna,“ segir meðal annars í dóminum.

Mynd með færslu
 Mynd: Björk Guðmundsdóttir

Í umfjöllun NME segir að tónleikarnir sé djarfir og storki væntingum. „Við ættum að vera þakklát fyrir listakonu sem er nógu villt til að setja á svið svo áræðna sýningu á sama vettvangi og fjöldaþóknanlegri hljómsveitir eins og McFly og Little Mix koma fram. Við erum uppi á tímum þar sem við öll verðum að reyna á mörkin og finna ný afbrigði verundar. Eins og konan segir sjálf í næstsíðasta lagi tónleikanna: Ímyndið ykkur framtíð og verið í henni.“

Gagnrýnandi Evening Standard gefur tónleikunum einnig fjórar stjörnur. Hann segir fegurð sjónarspilsins vera linnulausa en tónlistarlega hafi þeir á stundum reynt á þolmörkin . „Veröld Bjarkar, ný og góð, var ógleymanleg sýn.“

Gagnrýnandi The Guardian gefur fjórar stjörnur, segir að Björk ljómi á sviðinu og bjóði þar upp á stórbrotna sýn á plötu hennar, Utopia.

Tengdar fréttir

Tónlist

Íslenskt listafólk í stafrænu leikhúsi Bjarkar

Tónlist

Gnægtarbrunnur Bjarkar

Popptónlist

Björk ekki liðið eins og stjörnu í áratugi

Menningarefni

Björk heldur átta stórtónleika í New York