Metnaðarfull tónleikaröð Bjarkar Guðmundsdóttur, Cornucopia, hefur vakið mikla athygli um heim allan. Í gærkvöld kom röðin að Lundúnabúum að fá að njóta þeirrar margslungnu sýningar sem Björk býður upp á tónleikunum.
Tónleikarnir eru mikið sjónarspil og eru áhrifin slík að gagnrýnandi Independent, sem gefur þeim fullt hús stiga, hefur aldrei upplifað annað eins í jafn ólífrænu rými og O2-höllin er. „Íslenska listakonan blæs höfugu og sleipu lífi í berangurslegasta tónleikarými Lundúna,“ segir meðal annars í dóminum.