Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bregðast ekki við ummælum Gunnars Helga um Bandaríkin

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/SagaFilm - Skjáskot
Mennta-og lýðheilsusvið Hafnarfjarðar telur að ummæli sem Gunnar Helgason lét falla um Bandaríkin í Vikunni á RÚV hafi verið óheppileg. Þau hafi þó ekki verið í samræmi við það sem skólasamfélagið upplifði af heimsóknum hans í grunnskóla Hafnarfjarðar. Þetta kemur fram í tveggja síðna minnisblaði sem unnið var eftir að kvartað var undan orðum Gunnars í sjónvarpsþættinum til fræðsluráðs Hafnarfjarðar.

Gunnar Helgason er einn vinsælasti barnabókahöfundur landsins og fengu bæjaryfirvöld hann til að heimsækja alla grunnskóla bæjarins síðasta haust í tengslum við Bóka-og bíóhátíð bæjarins. 

Í kvörtun til bæjarins kemur fram að Gunnar hafi greint frá því í sjónvarpsþættinum að hann hafi spurt hafnfirsk grunnskólabörn í hvaða landi börn væru sett í búr. Aldrei hafi neinn vitað rétta svarið sem væru Bandaríkin. 

Sá sem kvartaði kallar þetta heilaþvott og þeir sem hefðu óbeit á Bandaríkjunum og Trump yrðu að finna sér önnur viðfangsefni en börn.  Til að mynda væri spurning hvort tjaldbúðir sem flóttamenn í Evrópu væru látnir búa í væru skárri en svokölluð búr. Og ekki mætti gleyma því hvernig heilum þjóðflokki væri haldið föngnum í Kína.  Heilaþvottur á börnum, jafnvel blandaður skemmtisögum væri ekki ásættanlegur.

Í minnisblaði mennta-og lýðsheilsusviðs segir að engar kvartanir né athugasemdir hafi borist frá stjórnendum eða öðru starfsfólki skólanna vegna heimsókna Gunnars heldur hafi verið almenn ánægja með þær.  Haft hefði verið samband við Gunnar vegna kvörtunarinnar sem teldi sig ekki hafa sagt neitt óeðlilegt eða verið með áróður gagnvart einu ríki.

Hann hafi síður en svo verið að halda erindi gegn Bandaríkjunum né viðhaft einhverja skoðanainnrætingu. Hann bjóði upp á umræðu um bækur sínar og í einstaka skólum hafi komið upp umræða úr fjölmiðlum þar sem innflytjendastefna Bandaríkjanna bar á góma og hlutur barna í því samhengi.

Mennta-og lýðheilsusvið telur því að ekkert óeðlilegt hafi átt sér stað í tengslum við heimsóknir Gunnars Helgasonar í grunnskóla Hafnarfjarðar. Umræða innan skólanna staðfesti að ánægja hafi verið með framlag hans. „Sömuleiðis er ekki ólíklegt að málefni líðandi stundar geti komið til umræðu í rithöfundaheimsóknum í skóla líkt og bent hefur verið á að gerðist í einhverjum skólaheimsóknanna.“

Skólastarf verði að vera opinn vettvangur, þar geti komið til umræðu málefni líðandi stundar og þau rædd á gagnrýnin hátt. „Ummæli Gunnars Helgasonar í umræddum þætti voru óheppileg og ekki í samræmi við það sem skólasamfélagið upplifði af heimsóknum hans.“ Það sé þó mat sviðsins að ekki sé tilefni til að bregðast frekar við.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV