Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bréf til sonar: Íslenskan og framtíðin – hvað nú?

Mynd: Þór Ægisson / RÚV

Bréf til sonar: Íslenskan og framtíðin – hvað nú?

20.01.2020 - 13:19

Höfundar

Auður Jónsdóttir rithöfundur horfir til framtíðar og glímir við spurninguna „Hvað nú?“ í pistlaröð í Víðsjá undir yfirskriftinni: Bréf til sonar. Að þessu sinni veltir hún fyrir sér framtíð íslenskunnar í snjalltækjavæddum heimi.

Auður Jónsdóttir skrifar:

Kæri sonur minn,

Þegar við pabbi þinn skildum lærðir þú á örfáum vikum að skrifa því þér lá svo á að geta skrifast á við hann. Í símaskránni þinni ertu búinn að skrifa eitthvað skemmtilega lýsandi við hvern vin og skreytir það auk þess með táknum. Stundum stelstu í tölvuna mína og skrifar eitthvað á erlenda spjallþræði í mínu nafni, eins og þegar ég uppgötvaði að nafnið mitt var skrifað fyrir hinum ýmsu alhæfingum, á ensku átta ára drengs, um snilld Hatara umfram aðra á alþjóðlegum spjallþræði um Júróvisjón.

Stundum hefurðu líka skrifað eitthvað á Facebook í mínu nafni, oftast nánast rétt stafsett, stundum vantar aðeins upp á.

En þú skrifar stöðugt og það er fyrir öllu. Því þegar þú notar tungumálið til að skrifa ertu ekki bara að tjá þig, þú ert að læra á valdatækið sem það er og uppgötva viðbrögð við því sem hugur þinn miðlar út í veröldina með þessu tæki sem tungumálið er. Ég var næstum því búin að skrifa með þessu tæki sem móðurmálið er en síðustu árin hef ég veigrað mér við að nota orðið móðurmál því merking þess flöktir í nútímanum, þannig að ég spyr mig:

Eigum við eftir að nota orðið móðurmál í framtíðinni?

Tungumálið er lifandi en um leið er veruleikinn svo ólgandi að merking orða flöktir og stundum máist hún jafnvel út áður en við náum að átta okkur á því, blinduð af orðaminni hugarheims okkar. Kannski þarf ég að útskýra þessa vangaveltu eilítið betur.

Þegar við bjuggum í Berlín voru börnin þar svo mörg tvítyngd, sum notuðu þrjú tungumál daglega. Sum þeirra áttu foreldra af tveimur þjóðernum, jafnvíg á tungumál móður og föður svo ég spurði mig: Hvort málið er móðurmál þeirra?

Getur verið að orðið móðurmál sé að einhverju leyti úrelt, veruleikinn hafi farið fram úr orðinu?

Og annað, einhvern tímann las ég að það foreldri sem stendur næst barni sé það sem í frumskynjuninni verður mamma, sama hvors kyns það er. En hugsun okkar er bundin við orðin sem við lærðum ung, við lærðum orðið móðurmál og orðið litar skynjun okkar. Við tölum málið sem við fengum með móðurmjólkinni, einhvern veginn skil ég orðið móðurmál þannig. En sum okkar fengu móðurmjólk úr eins konar dufti í vökva úr pela. Við erum svo alls konar í alla vega aðstæðum, blæbrigðin fleiri en hugurinn nemur í augnablikinu.

Ef eitthvað verður æ ljósara eftir því sem tímanum fleytir áfram, þá er það takmörkun hugans, bundins af innrætingu upprunans, til að fanga veruleikann með orðum.

Stundum heyrast raddir sem óttast að íslenskan muni deyja út. En til þess að hún deyi ekki út þarf að leyfa sumum orðum að deyja út og finna ný, nothæfari á breyttum tímum, nokkuð sem við erum stöðugt að gera. 
Tungumálið er vera sem þarf að aflúsa, rétt eins og fæða.

Stöðugt berast okkur upplýsingar um svo margt; við þeytumst um heiminn á meðan menningarheimar mætast og hugmyndir okkar um skilgreiningar okkar á sjálfum okkur umpólast; allt breytist svo hratt að sumir grípa dauðahaldi í þjóðernispopúlisma í þeirri von að þannig fái þeir spornað við örum breytingunum og haldið í gamla heimssýn.

Ótti okkar við tæknibreytingar, breytta menningu, upplausn hugtaka (og þar með upplausn hugarheimsins) fær fólk til að leita öryggis í hugtökum á borð við þjóðerniskennd og rétt trúarbrögð í þess skilningi, allt það sem því finnst geta rammað inn hugmynd þess um stoðir í flöktandi veruleika. Ótti við öra tækni og óvissa framtíð getur fætt af sér rasisma, hið ókunnuga flöktir og birtingamynd þess verður hrakin manneskja á flótta; hún er útlendingurinn, hið ókunnuga.

Morgundagurinn er það sem einhverjir óttast en óvissan tekur á sig mannslíki, hættan verður manneskja í leit að alþjóðlegri vernd, hún ógnar því þjóðlega. Manneskja sem hefði hvergi sést í veruleika ólíkt einangraðra samfélags þegar við, þetta miðaldra fullorðna fólk sem þú, sonur minn, kallar foreldra þína, var börn.

Og eitt valdatækið sem við, sem spruttum úr þessu umhverfi, notum til að verja veruleikasýn okkar, oft ómeðvitað, er gamalgróin hugmynd um móðurmál. Að sá sem hafi móðurmálið styrkast á valdi sínu sé um leið sá styrkasti.

Á samfélagsmiðlum má sjá fólk smætta og sjeima aðra í rökræðum hafi þeim orðið á í málfræði eða stafsetningu, þar með eiga rök þeirra að vera fallin um sjálf sig.

Við hugsum kannski of sjaldan um tungumálið sem valdatæki, sem það er, sérstaklega í samfélagi sem verður stöðugt fjölmenningarlegra, þar sem íbúarnir hafa misgott vald á málinu.

En um leið vex meðvitund um valdið í tungumálinu, nú í vetur sat ég tvö málþing þar sem var talað um móðurmálið sem valdatæki. Annars vegar var rætt um hvernig innflytjendur, fólk sem er að læra málið, hefur oft ekki færi á að hafa eins styrka rödd og aðrir í samfélaginu, til að mynda foreldrar barna í skóla af erlendum uppruna. Hins vegar, á seinna málþinginu, var rætt um notkunina á orðinu maður. Hvernig menn hafa eignast dýpri hlutdeild í þessu orði sem á að gilda jafnt um menn og konur – og hvernig tungumálið verður karllægt fyrir vikið.

Um hvað ertu að tala, mamma? spyrð þú kannski ringlaður. Og þá get ég
sagt: Maður man nú þegar maður var óléttur, þegar þú varst í maganum á manni.

Og kannski finnst þér setningin skrýtin því óhjákvæmilega verður skringilegur hljómur í henni.

Á sama tíma notar maður mann um sjálfan sig í sífellu, í því býr ákveðinn innileiki tungumálsins, maður er að vísa til manns. Manns sjálfs.

Manneskjunnar í iðrum sjálfsins.

En kannski eigum við eftir að tileinka okkur annað orð til að tjá sjálfið í hugarumbreytingum tímans; það sem hljómar sjálfsagt í dag gæti hljómað hjákátlega á morgun. Og sitt sýnist hverjum um allt það. En það að við tölum um valdið í tungumálinu er góðs viti. Við getum verið ósammála um orð sem þessi og haft á því ólíkar skoðanir, en það að tala um tungumálið heldur því lifandi, rétt eins og það heldur íslenskunni lifandi þegar þú, sonur minn, situr með símann þinn að skrifa vinum stuttar sögur í forritinu sem við köllum messenger.

En við verðum öll að fá að jagast í málinu, sama þó að málvitundin sé misstyrk. Svo lengi sem við jögumst í málinu og skrifum það til að skilja veröldina með blæbrigðum íslenskunnar lifir það – þannig að við þurfum öll að fá að vera jafn óhrædd við að nota það til að tjá okkur. 

Og eigna okkur það. Hver sem bakgrunnur okkar er, hversu gott við eigum með að skrifa. Þannig lifir íslenskan, ef við erum óhrædd við að nota hana, hugsa um hana, skilja hana upp á nýtt.

Vona ég.

En ég var líka á þriðja málþinginu og þar var rætt um talgervla sem tala ensku en verið er að þróa í áttina að íslensku. Að öðrum kosti gæti tungumálið verið í hættu, segja sumir, þegar við erum farin að tala við tækin á ensku í daglega lífinu.

Einhver sagði eftir þingið: Eru þetta ekki óþarfa áhyggjur, við förum aldrei að tala við tækin þannig, mannlegt atferli er ekki svoleiðis.

Um daginn tók ég hins vegar eftir því að þú og vinir þínir lékuð ykkur á ensku.
Ég nefndi þetta við pabba vinar þíns sem hafði áður veitt þessu athygli. 

Ástæðan: Jú, þið lékuð ykkur með símann og leikurinn í símanum bauð upp á að þið töluðuð ensku, gott ef þið voruð ekki að ræða við Siri.

Ykkur er orðið tamt að leika á ensku, rétt eins og íslensku, þannig að stundum finnst ykkur enskan eiga betur við.

Getur verið að tækin breyti mannlega atferlinu? Að þið sem eruð alin upp með tækjunum – fáið þau með móðurmjólkinni (hvort sem hún er úr dufti eða ekki) – verðið öðruvísi í atferli ykkar með tækjunum en við sem vorum alin upp þegar það var ekkert sjónvarp á fimmtudögum og allan júlímánuð?

Og þegar við förum út í búð ávarparðu stundum afgreiðslufólkið á ensku, það er að segja þegar við afgreiðum okkur ekki sjálf í þar til gerðri vél sem síðan minnir okkur á, vélrænni höktandi röddu, að gleyma ekki vörunum.

Þú ert vanur því að afgreiðslufólkið tali ensku álíka oft og íslensku þegar við erum í miðbænum. Ég varð hugsi yfir því þegar franskur þýðandi var með mér í bæjarferð og undraði sig á því að ekki væri gerð krafa á fólk í afgreiðslustörfum að læra hrafl í íslensku, þannig væri því háttað í Frakklandi, þrátt fyrir að það væri miklu fjölmennara málsvæði. 

Þá mundi ég eftir því að í þeim borgum í Evrópu sem ég hef búið hefur afgreiðslufólk yfirleitt tileinkað sér að læra einhver orð í opinberu máli landsins. En hér er það feimnismál, að spá í það, þó að við séum þetta fámenna, viðkvæma málsvæði. Svoleiðis pæling þykir jafnvel jaðra við útlendingaótta.

Ég gleðst yfir fólki af erlendum toga sem kærir sig um að vinna hérna. 
En ég gleðst líka þegar það er óhrætt við að prófa að jagast á tungumálinu, hjálpa okkur að halda því lifandi með því að nota það, þó að það tali vitlaust. Við tölum öll vitlaust og asnalega þegar við erum að læra tungumál, já, glutrum að einhverju leyti niður persónuleikanum. 

Svo munar nú bara um hverja einustu manneskju sem leggur það á sig að læra íslensku og fjölga okkur á fámenna málsvæðinu.

Ég reyni að halda íslenskunni að þér. Tölvuleikirnir þínir eru á ensku, þú horfir á þætti á ensku og þýsku, tekur varla eftir því hvaða tungumál þú ert að notast við. Ég gleðst yfir því, að þú tileinkir þér tungumál. 

Og að þú haldir þeim aðskildum, þannig verður þú góður í þeim öllum.
Ég óttast ekki að þú ryðgir í íslenskunni, þó að þú notir daglega önnur tungumál. Þvert á móti trúi ég að þau styrki hvert annað, meðvitundin um tungumál. Aðalatriðið þó, að þú hafir vald á málinu sem við köllum móðurmál og gæti heitið eitthvað annað í nútímanum. Þessu frumtungumáli sem þú tileinkaðir þér, svo að það fái skerpt grunntilfinningu þína fyrir öðrum tungum.

Ég vona að þú notir það sem mest í leikjunum þínum og úti í búð og haldir áfram að skrifa pabba þínum og vinum þínum á því, um allt sem þú ert að gera og hugsa og bardúsa. Því tungumálið sem þú fékkst með móðurmjólkinni er valdatæki. Það er tæki sem þú hefur fengið til lífstíðar til að setja mark þitt á veruleikann. Tjá þig með því og nota það til að skilja heiminn á forsendum þínum og með blæbrigðum hugarheims þíns sem stækkar samt við hvert hugtak sem þú lærir um leið á öðrum tungum.

Það er flókið að tala um íslenskuna og framtíðina. Kannski virðist viðkvæm staða íslenskunnar lítilvæg samanborið við hamfarir sem ógna heiminum, hugsanleg heimsyfirráð ófyrirsjáanlegrar tækni, allt það sem við leggjum upp með þegar við hugsum um framtíðina.

En tungumálið, tungumál tilfinninga þinna, er tækið þitt. Þú getur átt mörg tæki, en tækið sem þú hugsar með, málið sem litar drauma þína, er vald sem þú mátt ekki glata. Sama þó að þú eigir eftir að búa í Perú, Kína eða á Spáni. Því mig grunar að þú eigir eftir, einn góðan veðurdaginn, að búa í öðru landi. Ég vona að þú fáir tækifæri til þess. 

En kannski siglirðu með skipi til útlanda eins og langömmur þínar og langafar því flugskömmin gæti valdið hugafarsbreytingu áður en þú verður fulltíða. Kannski rennur upp sá dagur sem þú neitar að fljúga með mér, þessari gamaldags móður, til útlanda og pantar frekar far með Norrænu. 

Og kannski getur allt farið þannig að einn daginn verðum við á flótta í leit að alþjóðlegri vernd, enginn veit hversu mikil upplausn getur hlaupið í veruleika okkar, en ég vona að nú sé hugarflugið að hlaupa með mig í gönur.

Þú ert með útlönd í augunum þegar þú talar um framtíðina. Þess vegna er gott að þú heitir Leifur Ottó, við foreldrar þínir hugsuðum að það yrði hentugt fyrir þig í framtíðinni að heita líka nafni sem yrði hentugt að bera fram í útlöndum og nú þegar hefurðu heitið Leifur á Íslandi en Ottó í þýskum leikskóla. Hver veit hvort nafnið þú átt eftir að nota oftar í framtíðinni.

Þú ræður framtíðinni þinni – vona ég.

Kannski er framtíðin alltaf útlönd. Við, útlendingar í framtíðinni. 

Ferðalangar um eilífðina. Óvissuna.

Tengdar fréttir

Pistlar

Bréf til sonar míns

Bókmenntir

Keypti óvart gulláskrift á Tinder eftir skilnaðinn

Bókmenntir

Þrotabúskapur ástarinnar

Bókmenntir

Óraunverulegt að ganga í gegnum skilnað