Brautryðjendur ólíkra tíma

Mynd: Samsett / Samsett

Brautryðjendur ólíkra tíma

22.03.2020 - 10:27

Höfundar

Halla Þórlaug Óskarsdóttir ber saman tvær bækur fyrir börn og ungmenni um sögufræga Íslendinga sem komu út á síðasta ári, bækur um Vigdísi Finnbogadóttur eftir Rán Flygenring og Jóhannes Kjarval eftir Margréti Tryggvadóttur.

Halla Þórlaug Óskarsdóttir skrifar:

Á síðasta ári komu út tvær bækur um sögufræga Íslendinga, ætlaðar börnum. Þær eru afar ólíkar að upplagi og henta eflaust mismunandi aldurshópum, en ég ætla samt sem áður að fjalla um þær báðar í þessum pistli, þar sem segja má að tilgangurinn sé sá sami – að fræða nýja kynslóð um brautryðjendur í Íslandssögunni. 

Önnur bókin segir frá Vigdísi Finnbogadóttur, sem fyrst allra kvenna gegndi stöðu forseta lýðveldis. Sú heitir einfaldlega Vigdís - bókin um fyrsta konuforsetann og er eftir Rán Flygenring. Hin fjallar um einn stærsta listmálara Íslandssögunnar og kallast Kjarval - málarinn sem fór sínar eigin leiðir. Höfundurinn er Margrét Tryggvadóttir.

Þar sem ég sat með báðar þessar bækur á borði mínu og gluggaði í þær til skiptis hvarflaði hugurinn ósjálfrátt til þriðju bókarinnar, sem var í miklu eftirlæti hjá mér þegar ég var lítil. 

Sú heitir Lilja í garði listmálarans og segir frá Lilju, svona átta ára stelpu, sem fer ásamt nágranna sínum, herra Blómkvist, svona sjötugum manni, í ferðalag til að skoða sögufræga staði sem tengjast málaranum Claude Monet. 

Bókin var gefin út í Svíþjóð árið 1985 en kom ekki út í íslenskri þýðingu fyrr en níu árum síðar, árið 1994. Höfundarnir eru Christina Björk og Lena Andersson. 

Ég ímynda mér að ef ég myndi blanda saman bókunum um Kjarval og Vigdísi fengi ég bók sem væri ekki ósvipuð bókinni um Lilju í garði listmálarans. Ég kem aftur að henni síðar. 

Að banka upp á hjá forsetanum

Eins og ég sagði í upphafi eru bækurnar sem hér eru til umfjöllunar afar ólíkar, og það er í raun ekki skrýtið. Það er auðvitað allt annað að gera bók sem fjallar um núlifandi manneskju, en að skrifa um einstakling sem hefur verið látinn í nær hálfa öld. 

Bók sína um Vigdísi Finnbogadóttur hefur Rán Flygenring að öllum líkindum unnið í samtali við Vigdísi sjálfa. Frásögnin er tveggja laga, ef svo mætti segja, við fylgjum ungri stúlku, líklega fimm-sex ára, í heimsókn til Vigdísar, með það markmið fyrir augum að fræðast um fyrsta konuforsetann. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vigdís: bókin um fyrsta konuforsetann eftir Rán Flygenring.

Stúlkan hefur ekkert nafn, ætla má að þetta sé einhvers konar útgáfa af höfundinum sjálfum, sem eflaust upplifir sig sem litla stelpu andspænis frú Vigdísi Finnbogadóttur. Það hefði ekki endilega þurft að kynja barnið, í útliti getur það verið af hvaða kyni sem er, en kannski er mikilvægt fyrir samhengi sögunnar að þetta sé stúlka, fremur en drengur. Hins vegar mætti líka hugsa sér að nú væri röðin komin að kynsegin börnum – að verða aðalpersónur – eða drífa söguna áfram, jafnvel frá hliðarlínunni. Þetta væri eiginlega bara fullkomið upplegg fyrir það. En nóg um það, því það er hundleiðinlegt að lesa gagnrýni sem fjallar um það sem bókin er ekki, frekar en bókina sjálfa. 

Þeim sem þekkja til höfundarins, Ránar Flygenring, kemur það ekki á óvart að teikningar vega þungt í frásögninni. Litskrúðug smáatriði eru lokkandi og ég gekk hálfpartinn í barndóm þar sem ég fletti síðunum og staldraði lengi við hverja opnu og velti fyrir mér myndunum. Myndir segja jú meira en þúsund orð, eins og við vitum öll, og það veit Rán líka, enda vandar hún valið þegar kemur að hinu ritaða orði. 

Burðartexti bókarinnar er rödd Vigdísar, hún segir okkur frá. Í talblöðrum birtast svo innskotstextar – annað hvort dásamlega einlæg viðbrögð stúlkunnar sem er í heimsókn, eða skondnar hugrenningar persóna úr fortíðinni – nú eða innanstokksmuna. Í teiknimyndasögum er allt mögulegt. 

Vigdís ávarpar stúlkuna – og okkur lesendurna – af virðingu, og það er virðingarvert. Það fékk mig til að hugsa um hvernig völd eru best geymd í höndum þeirra sem bera virðingu fyrir þeim sem þeir hafa völd yfir – hvort sem það eru börn, þegnar – nú eða náttúran. 

Við erum öll þessi litla stúlka, gagnvart Vigdísi Finnbogadóttur og hennar djörfung og dug – en það sem við fullorðnu lesendurnir höfum tapað, sem stúlkan hefur enn, er hispursleysið og einlæga forvitnin sem glæðir bókina glettni. 

Grúskað í heimildum 

Orðræðan í bókinni um Kjarval - málarann sem fór sínar eigin leiðir - er ekkert ósvipuð þeirri sem heyra má í bókinni um Vigdísi. Þó er grundvallarmunurinn skýr, en hann felst í ávarpinu og fjarveru sögumanns. Jafnvel þótt orðavalið og tónninn gefi í skyn að textinn sé ætlaður ungum lesendum, þá er framsetningin þyngri og kaflaskiptin skýr, svo flæðið er ekki jafnleikandi og í bók Ránar Flygenring. Hins vegar er óneitanlega spennandi að lesa um líf Kjarvals, sem var sannarlega ævintýralegt. Og þrátt fyrir að Margrét hafi ekki getað tekið viðtal við listamanninn sjálfan ferst henni vel úr hendi að mála upp mynd af persónu hans. Styðst hún þá væntanlega við heimildir samferðamanna hans.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kjarval: málarinn sem fór sínar eigin leiðir eftir Margréti Tryggvadóttur.

Myndefni bókarinnar eru ljósmyndir, af verkum Kjarvals, af honum sjálfum, fjölskyldu og umhverfi hans – myndir frá vinnustofum, Þingvöllum og persónulegum munum. Til dæmis fær hattasafn hans dágott pláss og það gefur lesanda skýra hugmynd um margslunginn karakter Kjarvals, án þess að það sé beint orðað. 

Uppsetning bókarinnar er falleg og mörg smáatriði úthugsuð og vísa til málarans, til dæmis er upphafsstafur hvers kafla handmálaður, líkt og með olíulit. 

Margrét vekur upp ímyndunaraflið hjá lesandanum, því hún dregur upp skýrar myndir með lýsingum sínum, hvort sem er af tilburðum málarans við vinnu sína, eða deginum þegar hann kom í heiminn. 

Lífið var öðruvísi þegar Kjarval var lítill strákur og Margrét fléttar frásögninni saman við tímalínu lands og þjóðar, því uppvaxtarár Kjarvals voru sannarlega umbrotaskeið í sögu Íslands. 

Málverk Kjarvals og teikningar fá vitaskuld sitt rými í bókinni og höfundi er greinilega hjartans mál að kveikja áhuga lesenda sinna á myndlist hans og myndmáli. 

Margrét Tryggvadóttir tileinkar bókina foreldrum sínum sem, samkvæmt henni, fóru með hana á mun fleiri myndlistarsýningar en henni sjálfri þótti hæfilegt þegar hún var lítil stelpa. Þessi broslegu orð í upphafi bókarinnar minna okkur á mikilvægi þess að opna börnum gáttir inn í nýja – og gamla – heima, þrátt fyrir að stundum langi þau frekar að vera að gera eitthvað annað. 

Saga í sögu – eða einföld frásögn

Mig langar að víkja aftur að þriðju bókinni – sem hér er ekki til formlegrar umfjöllunar, en hefur verið mér hugleikin, líklega alveg frá því ég var barn. Lilja í garði listmálarans. Hvers vegna situr hún svona í mér? Hún hafði svo sterk áhrif á mig að þegar ég bjó sjálf í París mörgum árum síðar fór ég sérstaklega sömu leið og Lilja hafði farið, til að skoða bæði heimili Monets og svo verkin hans í Musée de l'Orangerie. 

Í þeirri bók var skálduð persóna, líkt og stúlkan í bók Ránar Flygenring, sem fór í heimsókn til sögufrægs málara. Í stað þess að eiga samskipti við málarann sjálfan fræðist hún í gegnum ferðafélaga sinn, herra Blómkvist, aldraðan nágranna sem af einhverjum ástæðum tekur upp á því að ferðast einsamall með skottuna til Parísar, til að skoða verk Monets. 

Þetta er leið til að gera bókina aðgengilega fyrir börn. Sagan er á tveimur plönum; skáldsaga um litla stelpu og vin hennar, gamla manninn í fjölbýlishúsinu, og svo fróðleikur um Monet.

En til þess að koma fyrir tveimur sögum í einni bók – einni barnabók – þarf að velja og hafna. Það er ekki hægt að koma allri ævisögu Monets fyrir í svona riti, en það er hægt að sá fræjum sem verða kannski til þess að ungir lesendur kynna sér málarann síðar meir.

Margrét Tryggvadóttir segir auðvitað ekki alla ævisögu Kjarvals í bók sinni, en hún kemur ansi mörgu að. Bókin hefur kennslufræðilegt yfirbragð og skartar prýðilegri heimildaskrá í lokin. Ég get ímyndað mér að þessi bók verði nýtt í kennslu í grunnskólum. Þó vil ég árétta að bókin er hvorki þurr né þung, ef einhverjir skyldu draga þá ályktun af orðum mínum. 

Bókin um Vigdísi hefur kannski ekki sama fræðslugildi, en er þó upplýsandi á annan hátt. Hún heitir Vigdís - bókin um fyrsta konuforsetann og titillinn gefur broslega í skyn að litla stúlkan sem skrifar bókina ætlar sér stóra hluti með útgáfunni. Hún heimsækir þennan fyrsta konuforseta með það að markmiði að skrifa sögu hennar – og auðvitað út frá eigin sjónarhorni, hvernig verður lítil stelpa forseti lýðveldisins? Þar sem hún byggir augljóslega á samtali við Vigdísi sjálfa fær alls konar aukafróðleikur að fylgja með, svo sem hvers konar kökur hún hafi boðið upp á í opinberum heimsóknum á Bessastöðum og svo lokahnykkurinn, sem snýr að ást Vigdísar á náttúrunni. Í lok bókarinnar segir hún nefnilega að það snjallasta sem hún hefði gert hafi verið að planta þremur trjám í hverri opinberri heimsókn út á land.

Fræ í ferska mold

Það er auðvelt að sjá að báðar bækurnar, um Vigdísi og Kjarval, munu heilla fullorðna ekkert síður en börn. Þær eru vandaðar og vel unnar og sauma saman ólíka tíma með ákveðnum þræði, sem er lífshlaup þessara tveggja brautryðjenda. Í lok bókar Magrétar Tryggvadóttur um Kjarval veltir hún upp spurningunni um hvort Kjarval hefði kannski orðið heimsfrægur ef stjórnendur MoMA safnsins í New York hefði tekist ætlunarverk sitt, að kaupa verk hans Fjallamjólk. Þeirri spurningu verður seint svarað, en safnið keypti hins vegar verkið Úr Bessastaðahrauni. Með þessum vangaveltum kastar Margrét boltanum út í heim og tengir Kjarval við myndlistarsögu heimsins. 

Tengsl Vigdísar Finnbogadóttur við heimssöguna þarf ekki að útlista fyrir ykkur, hlustendur góðir, en okkur ber auðvitað skylda til að útlista þau fyrir næstu kynslóðum. 

Að því sögðu væri jafnframt gaman að sjá þessar bækur á boðstólum erlendis, eða í það minnsta fyrir erlenda ferðamenn – hvernig sem staðan verður nú í ferðamannabransanum á næstunni. 

Kannski er einkennilegt að fjalla um þessar bækur í samanburði hvor við aðra, en ekkert verk hangir í lausu lofti og þessar bækur tala sannarlega saman þrátt fyrir að vera ólíkar. Og markmiðið með því að bera þær saman er alls ekki að reyna að skera úr um hver besta leiðin sé til að miðla sögunni til barna – þá meina ég Íslandssögunni eða heimssögunni – heldur kannski einmitt tala um að leiðirnar eru fjölmargar – og þegar vel tekst til geta slíkar bækur sáð fræjum sem verða að trjám löngu, löngu síðar. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Lífið er óútreiknanlegt

Bókmenntir

Brýndi sverð með kampavíni til að verja vísindin

Bókmenntir

„Afvopnar mann hvað þessi bók er falleg“

Myndlist

Kjarval var frumkvöðull í náttúruvernd