Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Braut trúnað um aðgerðir Seðlabankans

19.10.2016 - 17:33
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Sturla Pálsson, framvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands, gekkst við því að hafa brotið trúnað þegar hann upplýsti eiginkonu sína um aðgerðir Seðlabankans í aðdraganda neyðarlaganna. Eiginkona hans var þá lögmaður samtaka fjármálafyrirtækja. Sturla varaði sjálfur við því að innherjar hefðu getað nýtt sér það hversu seint neyðarlögin voru sett. Upplýsti Seðlabankann fyrst um framburð sinn eftir að Kastljós spurðist fyrir um málið.

Í vitnaskýrslunni yfir Sturlu Pálssyni, framkvæmdastjóra hjá Seðlabanka Íslands, sem fjallað verður um í Kastljósi í kvöld og fjalla meðal annars um aðkomu hans að símtali þeirra Geirs og Davíðs í aðdraganda þess að Kaupþingi, er einnig að finna áhugaverð ummæli hans um tímasetningu neyðarlaganna, og þess að innherjar hefðu mögulega nýtt sér þá stöðu. Þar segir:

„Sturla kvað að Geir H. Haarde hefði átt að stöðva einum sólarhring fyrr (Guð blessi Ísland ávarpið). Hann kvaðst hafa verið áhyggjufullur yfir því að bankarnir skyldu opnaðir á mánudeginum. Neyðarlögin hefðu átt að koma sólarhring fyrr. Reiknar með að í bönkunum sé að finna hreyfingar sem áttu uppruna sinn í því að menn töldu góðar líkur á því að þeir færu á hausinn. Það hefði átt að samþykkja neyðarlögin og „Blessa Ísland" á sunnudagskvöldið."
 
Allt opið á mánudeginum
 
Eins og kunnugt er voru neyðarlögin samþykkt að kvöldi mánudagsins 6. október 2008. Helgina á undan hafði mikil óreiða ríkt í stjórnkerfinu. Linnulaus fundarhöld höfðu verið hér í ráðherrabústaðnum. Eigendur bankanna, stjórnendur þeirra og alþjóðlegir ráðgjafar höfðu farið og komið. Á sunnudagskvöldinu biðu því fjölmiðlar - og að sjálfsögðu eigendur bankanna og raunar allur almenningur - því eftir því að aðgerðir yrðu kynntar til þess að takast á við þá stöðu sem upp var komin eftir þjóðnýtingu Glitnis og lausafjárstöðu bankanna í kjölfar kreppunnar beggja vegna Atlantshafsins.
 
Upplýsingar mikils virði
 
Þegar forsætisráðherra kom til fundar við blaðamenn laust fyrir miðnætti á sunnudag undruðust margir yfirlýsingar hans um að ekki væri lengur talin þörf á sérstökum aðgerðarpakka vegna ástandsins sem þá var uppi. Hver sem ástæðan var átti tæpur sólarhringur eftir að líða þar til gripið var inn í. Og fyrir þá sem vissu hvað væri að fara að gerast var ljóst að fram eftir mánudeginum gátu menn hagnýtt sér þær upplýsingar enda bankarnir opnir.
 
Mikið í húfi
 
Ströng þagnarskylda hvíldi á þeim sem dagana fyrir neyðarlögin komu að málum fyrir hönd ríkisins og Seðlabankans. Upplýsingar voru í þessu tilfelli mikils virði. Það var enda mikið í húfi fyrir þá sem vissu hvert stefndi og til stóð af hálfu Seðlabankans, eins og Sturla bendir á. Þau ummæli verða þó að skoðast í samhengi við það sem síðar er borið undir hann í sömu yfirheyrslu.
 
Þá er Sturlu kynnt endurrit úr símtali milli hans og eiginkonu hans frá því tveimur dögum fyrir setningu neyðarlaganna, úr síma Sturlu í Seðlabankanum. Efni símtalsins er rakið svona í skýrslunni:
 
„Á bls 1 kemur fram að hugsanlegt sé að einum banka verði bjargað. Á bls 3 kemur að SÞÁ (Sigurjón Þ Árnason bankastjóri Landsbankans) sé hættur að hringja og hann sé búinn að kasta inn handklæðinu, hann sé búinn að gefast upp. Einnig kemur fram að það séu bara Kaupþingsmenn núna Landsbankinn sé farinn og ECB (Evrópski Seðlabankinn) muni triggera það."
Eiginkonan starfsmaður bankanna
  
Eiginkona Sturlu var á þessum tíma lögfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, hagsmunasamtaka allra banka og sparisjóða á Íslandi, sem hvort tveggja Landsbankinn og Kaupþing áttu aðild að. Upplýsingar um að Landsbankinn væri „farinn", bankastjórinn búinn að „gefast upp", „einum banka verði bjargað" og „það séu bara kaupþingsmenn núna" eru allt upplýsingar sem gátu auðveldlega nýst frá opnun markaða og bankanna sjálfra á mánudegi og fram á kvöld. 
 
Afsvar barst löngu síðar
 
Og jafnvel þó að staða Landsbankans hafi verið orðin erfið á þessum tímapunkti vonuðust stjórnendur bankans þá enn eftir því að Seðlabankinn myndi veita Landsbankanum neyðarlán. Sturlu virðist strax þessa helgi hafa verið ljóst að slíkt lán yrði ekki veitt Landsbankanum, þótt stjórnendur Landsbankans fengju ekki formlegt svar fyrr en klukkan 15 á mánudeginum.
 
Trúnaðarskylda að lögum
 
Í lögum um Seðlabanka Íslands eru skýr ákvæði um þagnarskyldu stjórnenda og starfsmanna Seðlabankans. „starfsmenn Seðlabanka Íslands eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls" Auk þess er í lögunum ákvæði sem leggur blátt bann við því að starfsmenn bankans nýti „sér trúnaðarupplýsingar, sem þeir komast yfir vegna starfs síns í bankanum, í þeim tilgangi að hagnast eða forðast fjárhagslegt tjón í viðskiptum."
 
„náttúrulega að brjóta trúnað“
 
Hvort það að Sturla ræddi svo viðkvæm málefni úr störfum sínum við eiginkonu sína hafi ekki falið í sér skýrt brot á starfsskyldum hans og lögum, svarar Sturla í raun sjálfur í yfirheyrslunni árið 2012, en þar segir orðrétt:
„Sturla kvaðst náttúrulega vera að brjóta trúnað með því að ræða þetta við konuna sína.“
Þegar Kastljós bar þessar upplýsingar undir Sturlu í lok síðustu viku kvaðst hann kannast við atburðarrásina sem þar er lýst. Spurður hvort hann hefði tilkynnt yfirmönnum sínum eða öðrum í Seðlabankanum um þetta trúnaðarbrot sitt sagði hann svo ekki vera.
 
Ekki upplýst Seðlabankann
 
Seðlabankinn hefði látið Sérstökum saksóknara í té upptökur úr símum hans og annarra starfsmanna vegna rannsóknar ýmissa mála. Sturla kvaðst ekki vita hvort Seðlabankinn hefði upplýsingar um þetta einstaka mál. Það hefði í það minnsta ekki verið rætt við hann.
 
Kastljós leitaði viðbragða Seðlabankans við þessum upplýsingum og þeirri staðreynd að einn lykilmanna bankans í aðgerðum tengdum Hruninu, hefði játað að hafa rofið trúnað um þau störf sín. Í svari Seðlabankans segir að Seðlabankastjóra hafi ekki verið kunnugt um efni vitnaskýrslunnar og símtala sem vitnað var til í skýrslunni. 
 
Seðlabankinn ekki kannað málið
 

„Vitnaskýrslur af þessu tagi eru trúnaðarmál hjá viðkomandi embætti. Ljóst er af þessu að embættið taldi ekki tilefni til að upplýsa seðlabankastjóra um málið enda hluti af ferli sem statt var hjá þar til bærum yfirvöldum,“ segir í svari Seðlabankans.

Um viðbrögð Seðlabankans og þess hvort og þá hvaða eftirmálar yrðu af málinu sagði í svari Bankans:

„Sturla greindi seðlabankastjóra frá umræddu símtali í lok síðustu viku. Það hefur ekki verið kannað sérstaklega af hálfu Seðlabankans.“

 
 
helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV