Brasilía hafnar framlögum G7 ríkjanna

27.08.2019 - 04:11
epa07788693 A protester paints a sign during a protest  against the fires that have been burning in the Amazonia, at the Brazilian Consulate in Cali, Colombia, 23 August 2019.  EPA-EFE/Ernesto Guzman Jr.
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Stjórnvöld í Brasilíu höfnuðu í nótt 20 milljón dollara framlögum sem G7 ríkin buðu þeim til að takast á við skógarelda sem geisa nú í regnskógum Amazon. Talsmaður forsetans Jair Bolsonaro sagði að Emmanuel Maccron, Frakklandsforseti, ætti að nýta fjármunina heima fyrir.

Onyx Lorenzoni, talsmaður Balsonaro forseta sagði að Brasilíumenn kynnu að meta framlagið, en mögulega ættu fjármunirnir frekar heima í öðrum verkefnum, eins og að endurheimta skóglendi í Evrópu.

Hann sagði einnig að Macron hefði ekki getað séð fyrir brunann í Notre Dame kirkjunni, og því sjái hann ekki hvaða lexíu hann sé að reyna að kenna Brasilíumönnum. Umhverfisráðherra Brasilíu, Ricardo Salles hafði áður gefið það út að framlögunum yrði vel tekið til að takast á við eldana sem hafa farið yfir um 950 þúsund hektara lands. Her landsins hefur verið kallaður til aðstoðar við að ráða niðurlögum þeirra. 
Lorenzoni  bætti við að Brasilía væri frjáls lýðræðisríki sem tæki aldrei mark á nýlenduhugsunarhætti sem væri raunin hjá Frakklandsforseta.
 

Vöruðu stjórnvöld við í byrjun ágúst

Opinberir starfsmenn á vegum umhverfismála og héraðssaksóknari í Brasilíu segjast hafa látið yfirvöld vita að bændur og fleiri sem ásældust landsvæði hefðu í hyggju að kveikja elda 10. ágúst til að lýsa yfir stuðningi sínum við stefnu Bolsonaro forseta Brasilíu. Hins vegar hafi stjórnvöld ekki brugðist við með nokkrum hætti fyrr en eftir að eldarnir hafi verið kveiktir.

Þetta kemur fram á vef The Guardian. Þar er haft eftir starfsmönnunum að þeir hafi gert stjórnvöldum viðvart um fyriráætlanirnar nokkrum dögum áður en þeir voru kveiktir  en stjórnvöld hafi ekki brugðist við.

Héraðsaksóknari í Pará héraði í Amazon hefur hrundið af stað rannsókn til að kanna málið nánar. Fram hafi komið í litlum fjölmiðli í bænum Noco Progresso þann fimmta ágúst að til stæði að kveikja eldana í mótmælaskyni. Þar er haft eftir einum bónda: „Við þurfum að sýna forsetanum að við viljum vinna,“ og bætti við að eina leiðin til að verða sér út um ræktunarland væri að ryðja skóg og brenna hann. 

Umhverfisstofnun landsins, Ibama,  brást ekki við tilkynningu frá saksóknaranum fyrr en tveimur dögum eftir að mótmælin fóru fram. Ibama segir að stofnunin hafi ekki gert það vegna þess að vantað hafi upp á stuðning frá lögreglunni á staðnum. Lögreglunni hefði verið hótað áður.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi