Bragðvont og heilsuspillandi skítbras

Mynd: Wikipedia / Wikipedia

Bragðvont og heilsuspillandi skítbras

06.06.2019 - 16:24
Ekki er víst að margir undir fimmtugu kannist við fyrirbærið kaffibæti sem Íslendingar notuðu um árabil til að drýgja kaffi. Hann var misvinsæll meðal fólks og meðal þeirra sem voru ekki aðdáendur var nóbelsverðlaunaskáldið Halldór Laxness.

Kaffibætir eða export eins og hann var líka kallaður var búinn til úr þurrkaðri, ristaðri og mulinni sikkorírót og honum svo blandað saman við malað kaffi áður en hellt var upp á. Kaffibætirinn var þannig notaður til að spara kaffibaunirnar sem gátu verið frekar dýrar. Svokallað baunakaffi, sem sagt kaffi einungis úr kaffibaunum, var þá notað við sérstök tilefni, veislur eða þegar einhver merkilegur kom í heimsókn. 

Halldór Laxnes, nóbelsskáldið sjálft, var hins vegar einn af þeim sem hötuðu kaffibæti innilega. Hann lét meðal annars hafa eftir sér að hann gæti ekki drukkið þetta bragðvonda og heilsuspillandi skítbras nema af sérstakri kurteisi.

Vilhelm Neto og Fjölnir Gíslason fjölluðum um kaffibæti og andúð Halldórs Laxness á fyrirbærinu í hlaðvarpsþættinum Já OK! þar sem þeir skoða alla skrýtnu hlutina sem voru einu sinni aðalmálið á Íslandi en hafa síðan horfið.

Hlustaðu á þátt vikunnar í spilaranum hér fyrir ofan en Já OK! er á dagskrá í streyminu á ruvnull.is alla miðvikudaga klukkan 21 og er eftir það aðgengilegur á vefnum og í öllum helstu hlaðvarpsveitum.