Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

BPA í niðursuðudósum

04.04.2016 - 14:30
Mynd: - / wikipedia
Ný rannsókn á notkun og útbreiðslu hormónaraskandi efnisins Bisfenól-A eða BPA í niðursuðudósum hefru vakið athygli. Stefán Gíslason fjallar um niðurstöðurnar í pistli sínum í dag sem lesa má hér að neðan.

Slæmar fréttir geta ýtt við þeim sem heyra þær eða lesa, jafnvel svo að fátt annað komist að í huga þeirra fyrst eftir að fréttirnar berast. En þegar fram líða stundir gleymist viðfangsefnið og önnur taka við. Og stundum virðast stundir líða mjög hratt fram. Það að málið sé ekki lengur í hámæli þýðir þó ekki endilega að það slæma í fréttinni sé úr sögunni. Það á það þvert á móti til að skjóta upp kollinum aftur löngu seinna eins og ekkert hafi í skorist.

 

Fréttir um varasöm efni í matvælaumbúðum eru dæmi um fréttir af þessu tagi. Það að þessi efni hafi ekki verið mikið til umræðu í nokkrar vikur þýðir ekki að málið sé leyst og efnin séu horfin af sjónarsviðinu. Áminning um þetta birtist í skýrslu sem kom út vestanhafs á dögunum og sagt var frá á vefsíðu tímaritsins Time Magazine 30. mars sl. Skýrslan hefur að geyma niðurstöður nýrrar rannsóknar á útbreiðslu efnisins Bisfenól-A eða BPA í niðursuðudósum. BPA er m.a. að finna í epoxýlakki sem lengi hefur verið notað til að húða niðursuðudósir að innan til að koma í veg fyrir að málmur í umbúðunum tærist og mengi matvælin. Vandinn er bara sá að BPA er hormónaraskandi og ef efnið berst í matvælin í dósinni er leiðin greið inn í líkama neytandans.

 

Síðustu ár hafa ýmis samtök beitt sér gegn notkun BPA í niðursuðudósir og aðrar neytendavörur. Árið 2009 var mikið rætt um tilvist efnisins í ungbarnapelum og snuðum og í kjölfarið var notkun efnisins í þess konar vörur bönnuð í nokkrum löndum Evrópu. Árið 2013 kröfðust norsku neytendasamtökin (Forbrukerrådet) þess að bannað yrði að nota efnið í matarumbúðir, en sú krafa var sett fram eftir að samtökin höfðu gert tilraun á tveimur starfsmönnum úr eigin röðum í samvinnu við neytendaþátt norska ríkissjónvarpsins (NRK Forbrukerinspektørene). Starfsmennirnir snæddu eingöngu dósamat í tvo daga, og strax eftir fyrri daginn hafði styrkur BPA í þvagi þeirra hækkað um rúmlega 1.000%. Í Frakklandi hefur notkun efnisins í matarumbúðir verið bönnuð frá því í ársbyrjun 2015 og svo mætti lengi telja. Eftir því sem árin hafa liðið hafa líka komið fram fleiri vísbendingar um skaðsemi efnisins og sömuleiðis um að skaðleg áhrif geti komið fram við lægri styrk en áður var talið. Efnið hefur m.a. verið tengt við brjóstakrabbamein, ófrjósemi, mígreni, offitu, þroskun heila á fósturstigi, hegðunarvandamál hjá börnum og þar fram eftir götunum. Neikvæð áhrif efnisins á hagkerfið hafa líka verið í sviðsljósinu. Í grein sem birtist í tímaritinu Health Affairs í árslok 2013 var því t.d. haldið fram að algjört bann við notkun efnisins í matarumbúðir í Bandaríkjunum gæti komið í veg fyrir 6.236 tilfelli af offitu barna þarlendis á ári hverju og lækkað nýgengi kransæðasjúkdóma um 22.350 tilfelli. Um leið myndu sparast sem nemur rúmlega 200 milljörðum íslenskra króna í heilbrigðiskerfinu árlega og var þar bara átt við sparnað vegna fækkunar offitu- og kransæðasjúkdómatilfella.

 

Að öllu þessu sögðu mætti ætla að menn hljóti að vera steinhættir að nota BPA til að húða niðursuðudósir að innan. En skýrslan sem sagt var frá í Time Magazine í síðustu viku sýnir að enn vantar þar herslumuninn, þrátt fyrir ýmis fyrirheit ýmissa fyrirtækja um að hætta að nota þetta margumtalaða efni. Í skýrslunni kemur fram að af 192 mismunandi niðursuðudósum sem skoðaðar voru hafi 129 (eða 67%) innihaldið epoxýefni með BPA. Þessi mikla útbreiðsla kom skýrsluhöfundum verulega á óvart í ljósi þess hversu mjög efnið hefur verið í sviðsljósinu. Í skýrslunni er líka rýnt í frammistöðu einstakra fyrirtækja, ekki bara út frá því hvort BPA sé enn að finna í dósunum þeirra, heldur líka út frá því hverju fyrirtækin hafi lofað, hverjar séu efndirnar og hvernig loforðalisti framtíðarinnar líti út.

 

Af einstökum fyrirtækjum má segja að súpuframleiðandinn Campbell komi verst út, en þar fannst BPA í öllum þeim 15 mismunandi dósum sem skoðaðar voru, jafnvel þótt fyrirtækið segist hafa náð verulegum árangri í að hætta að nota BPA. Del Monte, sem margir þekkja sem framleiðanda niðursoðinna ávaxta, kom ekki mikið betur út, en þar fannst efnið í 10 dósum af 14 eða 71%. Hjá General Mills var hlutfallið 50% en þar eru m.a. framleiddar vörur undir vörumerkjunum Progresso og Green Giant. Sumir smærri framleiðendur voru líka með BPA í öllum sínum dósum, þ.á.m. fyrirtækin McCormick & Co og Nestlé, sem bæði eiga það sameiginlegt með Campbell að segjast vera að hætta að nota BPA í framleiðsluvörur sínar.

 

Nokkur þeirra fyrirtækja sem hér hafa verið nefnd brugðust skjótt við eftir að umrædd skýrsla leit dagsins ljós, og lýstu því yfir að þau ætli einmitt að hætta notkun BPA alfarið á þessu ári, eða því næsta.

 

Reyndar má segja, niðursuðudósamatarframleiðendum til varnar, að mönnum hefur ekki gengið allt of vel að finna efni sem gera sama gagn í niðursuðudósum og BPA. Reyndar er einmitt fundið að því í skýrslunni sem hér er til umræðu, að þeir aðilar sem hafa skipt BPA út og notað önnur efni í staðinn láti gjarnan hjá líða að upplýsa hvaða efni það séu. Þannig sé hugsanlegt að í einhverjum tilvikum sé verið að fara úr öskunni í eldinn. Í einhverjum tilvikum hafa menn t.d. fundið upp á því að nota PVC plast eða pólýstýren í staðinn fyrir BPA. Grunneiningar þessara efna, þ.e.a.s. annars vegar vínylklóríð og hins vegar stýren eru þekktir, eða a.m.k. hugsanlegir, krabbameinsvaldar.

 

Hvernig sem á þessi mál er litið er augljóst að það er ekki alltaf auðvelt að vera neytandi, enda er eina rétta svarið sjaldnast innan seilingar. En ef maður vill vita hvaða efni leynast í matvælunum eða í umbúðunum utan um þau, þá er um að gera að spyrja. Ef nógu margir kaupendur spyrja spurninga endar með því að seljendurnir verða að svara. Meðan óvissan varir er líklega ráðlegt að spara heldur við sig dósamatinn og borða sem mest af lítt unnu ferskmeti í staðinn. Ferskir ávextir og ferskt grænmeti er mjög líklega betra fyrir heilsuna en sams konar vara sem hefur hvílt sig í nokkra mánuði í niðursuðudósum, jafnvel í sykurlegi. Mestu máli skiptir þó að hafa augun opin og ástunda gagnrýna hugsun, ekki bara þá daga sem slæmar fréttir berast, heldur alltaf, og ekki bara þegar niðursuðudósir ber á góma, heldur líka á öðrum sviðum mannlífsins.

 

 

leifurh's picture
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður