Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Botninum náð í vetur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum í þremur prósentum. Í óvenju stuttri yfirlýsingu nefndarinnar kemur fram að þróun efnahagslífsins hafi í meginatriðum verið í takt við nóvemberspá bankans og lítið hafi gerst frá síðasta fundi nefndarinnar.

Stýrivextir hafa verið lækkaðir um eitt og hálft 1,5 prósentustig á þessu ári. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að áhrif þeirra lækkana muni koma fram á næsta ári. Ef þau láta á sér standa útilokar Ásgeir ekki frekari vaxtalækkanir.

„Vextir núna eru komnir í sögulegt lágmark þannig að við viljum láta reyna á það hvort þetta stýrivaxtastig dugi til þess að koma hagkerfinu aftur af stað. En náttúrlega munum við fylgjast áfram með. Ef hagerfið er ekki að taka við sér, ef við erum að fara að sjá næsta ár koma illa út, samdrátt eða eitthvað álíka, þá auðvitað munum við bregðast við.“

Gera ráð fyrir viðsnúningi um mitt næsta ár

Samkvæmt breytingatillögum meirihluta fjárlaganefndar verður ríkissjóður rekinn með halla á næsta ári, í fyrsta skipti í átta ár. Þá lækkar tekjuskattur um áramót samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti á dögunum. Ásgeir segir að þessar aðgerðir hafi verið teknar með í reikninginn við stýrivaxtaákvörðunina. „Það mun styðja við einkaneyslu og almenn umsvif í landinu. Það er í sjálfu sér ekki að öllu leyti slæmt að fá örvun núna. Við höfum metið þetta inn í okkar spár og það er meðal annars ástæðan fyrir því að við þurfum ekki að lækka vexti eins mikið og ella hefði verið.“

Ásgeir gerir ráð fyrir að yfirstandandi vetur verði botninn í niðursveiflunni og að hagkerfið byrji að taka við sér næsta sumar. „En svo vitum við ekki hvað mun gerast. Það eru margir áhættuþættir, við erum lítið hagkerfi og reiðum okkur mikið á utanríkisviðskipti. Það er því mikil óvissa og erfitt að spá fram í tímann.“

 

Magnús Geir Eyjólfsson