Börnunum þykir ofsalega vænt um pokana sína

Mynd: Gígja Hólmgeirsdóttir / RÚV

Börnunum þykir ofsalega vænt um pokana sína

27.11.2019 - 13:03

Höfundar

Sífellt fleiri leita annarra og umhverfisvænni leiða þegar kemur að jólaundirbúningnum, til dæmis hvernig hægt er að sleppa að kaupa hinn hefðbundna gjafapappír sem fer beint í ruslið þegar búið er að taka utan af gjöfinni. Ein leið er að sauma jólagjafapoka sem hægt er að nýta aftur og aftur. Rás 2 heimsótti Hafdísi Jakobsdóttur, uppeldisfræðing á Akureyri, sem til fjölda ára hefur notað heimasaumaða jólagjafapoka.

Hefð frá tengdó

Hafdís byrjaði að sauma jólapoka undir gjafir fyrir um 15 árum. Fyrstu pokana saumaði hún fyrir systkinabörn sín og svo gerði hún fleiri poka eftir því sem fjölskyldan stækkaði. Börnin fá jólagjafirnar sínar í jólapokanum, svo er pokanum skilað og þau fá hann aftur utan um gjafir næstu jól.  

Þennan sið tekur Hafdís frá tengdamóður sinni, Soffíu Valdemarsdóttur, sem byrjaði að nota saumaða jólagjafapoka fyrir barnabörnin fyrir um þrjátíu árum.

Mikil gleði 

Hafdís segir að börnin myndi sterk tengsl við jólapokann sinn og þyki vænt um hann. „Það var alltaf spenningur og svo er þetta bara svo fallegt undir trénu. Ég veit að börnunum í dag þykir alveg ofsalega vænt um pokana sína. Og það gleður mig rosalega mikið þegar til dæmis 17 ára frændi minn sagði við mig um daginn að það kæmu engin jól nema hann fengi jólapokann sinn. Þannig að það yljar manni, gleðin yfir pokunum,“ segir hún.   

Hafdís deyr ekki ekki ráðalaus þó gjöfin passi stundum ekki ofan í pokann „Þá hef ég keypt endurvinnanlegan umbúðapappír sem ég pakka bara helmingnum af gjöfinni inn í og sting svo ofan í pokann og bind fyrir. Mjög einfalt!“

Hún mælir hiklaust með þessu. „Þetta er svo mikil gleði þegar krakkarnir fá pokann sinn og skila honum svo aftur eftir að hafa séð innihaldið.“

Gígja Hólmgeirsdóttir spjallaði við Hafdísi Jakobsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.