Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Börn þreytt, svöng og þeim kalt fyrstu dagana

26.09.2019 - 08:27
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Börn sem koma til Íslands í leit að alþjóðlegri vernd eru mörg þreytt, svöng og þeim kalt fyrstu dagana sína hér á landi. Þetta kom fram í viðtölum UNICEf við þrjátíu og eitt barn sem kom til landsins á síðasta ári.

Yngsta barnið sem rætt var við var 7 ára og það elsta 21 árs sem hafði komið til landsins sem fylgdarlaust barn. Frá árinu 2016 hafa 770 börn sótt um alþjóðlega vernd, þar af yfir 70 sem komu ein til landsins.

Eva Bjarnadóttir frá Unicef segir að börn og fjölskyldur búi í húsnæði sem Útlendingastofnun sjái um, áður en þau fái að flytja í sveitarfélögin sem taka á móti þeim. „Það minnsta kosti hjá þeim fjölskyldum og þeim börnum sem við ræddum við, þá voru aðstæðurnar í þessu húsnæði erfiðar. Það voru ekki leikföng, það voru ekki aðstæður til að leika utan dyra né innan. Þau fengu ekki strax að fara í skóla. Það voru þarna erfiðleikar fyrst um sinn að útvega mat. Fjölskyldur fá kort í Bónus að lokum en ef til dæmis fjölskyldan kom á hátíðisdögum eða yfir helgi þá gat verið bið á því. Þannig fyrstu vikurnar gátu verið mjög erfiðar börnunum og þau mundu mjög vel eftir þessum dögum.“

Eftir lagabreytinguna 2017 hafi ástandið ekki skánað. „Það sem kannski kom okkur mjög á óvart er að aðstæður hafa versnað eftir að ný lög tóku gildi. Í þeim lögum var svona eilítil aukasetning sem sagði að það væri heimilt að vista fylgdarlaus börn, 15 ára og eldri, í þessu húsnæði Útlendingastofnunar. Eftir lagabreytinguna fór það frá því að vera heimild í að vera regla.“ sagði Eva.

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV