Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Börn fylltu stúkuna í Belgrað

epa07854193 Partizan's supporters cheer on their team before the UEFA Europa League soccer match between Partizan Belgrade and AZ Alkmaar in Belgrade, Serbia, 19 September 2019.  EPA-EFE/SRDJAN SUKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Börn fylltu stúkuna í Belgrað

20.09.2019 - 18:20
Aðeins börnum undir 15 ára aldri var heimilt að mæta á Evrópudeildarleik Partizan gegn AZ Alkmaar í Evrópudeildinni í fótbolta í gær. Rúmlega 20 þúsund börn fjölmenntu á leikinn sem fram fór á heimavelli Partizan í Belgrað.

Partizan hlaut refsingu frá Evrópska knattspyrnusambandinu, UEFA, vegna rasisma stuðningsmanna félagsins sem beint var að Mitchell Donald, leikmanni tyrkneska liðsins Yeni Malatyaspor, er Partizan sló liðið út í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Félögum er gjarnan skipað að leika fyrir luktum dyrum þegar slík mál koma upp en Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, refsaði Partizan fyrir athæfið með því að meina þeim stuðningsmönnum aðgang sem væru 15 ára eða eldri. Rúmlega 20 þúsund börn létu sjá sig á 35 þúsund manna heimavelli Partizan í gær og sáu liðið gera þar 2-2 jafntefli gegn AZ Alkmaar frá Hollandi í fyrsta leik riðlakeppninnar.

Albert Guðmundsson kom ekki við sögu hjá hollenska liðinu en ásamt AZ og Partizan eru Manchester United og Astana í riðlinum. Manchester United vann Astana 1-0 á Old Trafford í gær þar sem Rúnar Már Sigurjónsson spilaði allan leikinn fyrir gestina frá Kasakstan.