Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Börn ættu að læra skyndihjálp

13.03.2019 - 11:00
Mynd:  / 
Allir ættu að fara á námskeið í skyndihjálp segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, leiðbeinandi í skyndihjálp hjá Rauða krossinum. Einnig ætti að kenna skyndihjálp í grunnskólum því það hafi sýnt sig að börn geta bjargað mannslífum. Þóra Kristín starfar líka hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins að almannavörnum. Rætt var við Þóru Kristínu í Mannlega þættinum.

skyndihjalp.is

Þegar farið er inn á vefinn skyndihjalp.is má sjá lista yfir margt sem getur komið fyrir fólk og lýsingu á því hvernig á að bregðast við.  Hvað á t.d. að gera ef fólk kemur að einhverjum sem er með aðskotahlut í hálsi, áverka á höfði, beinbrot, blóðsykurfall, blæðingu, bráðaofnæmi, brjóstverk eða hjartaáfall, er með brunasár, hefur tekið inn eitur, er meðvitundarlaus og þarf að endurlífga, hefur fengið heilablóðfall, heilahimnubólgu, hitasalg, krampa eða flog, lost, ofkælst, fengið skordýrabit, tognað eða stríðir við öndunarerfiðleika o.fl. o.fl. 

Er þetta allt kennt á skyndihjálparnámskeiði?   „Þessir hlutir sem þú varst að telja upp núna eru kenndir á 8 stunda og 12 stunda námskeiðum hjá Rauða krossinum.“

Hringja fyrst í 112

Þóra Kristín segir að þó svo fólk hafi ekki farið á skyndihjálparnámskeið geti fólk brugðist rétt við. Margt af þessu sé almenn skynsemi. Fyrsta sem allir eigi að gera er að hringja í einn einn tvo. 

„Algerlega fá leiðbeiningar og fylgja þeim en að sjálfssögðu eiga allir að fara á skyndihjálpanámskeið. Við eigum að fara og læra þetta vegna þess að staðreyndin er sú að slysin gerast þar sem við erum heima og erum í fríinu en líka bara þannig að við lifum okkar daglega lífi og það gerist alltaf eitthvað. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær og það að vera undirbúinn gerir okkur svo miklu betur í stakk búinn til að bregðast við. Þannig að það eiga allir að fara.“ 

Skyndihjálp ætti að kenna í grunnskólum

Sumir skólar hafa tekið upp kennslu í skyndihjálp en ekki sem skyldugrein. Þóra Kristín segir að hún ætti að vera skyldugrein því skyndihjálp nýtist samfélaginu á svo margan hátt.   

Ætti að kenna þetta í skólum? Að mínu viti já algerlega ekki spurning og ég fagna t.d. þessum skólum eins og menntaskólunum sumum sem eru að bjóða einingu og framhaldsskólum einingu fyrir skyndihjáparnámskeið. Ég kenni skyndihjálparnámskeið hjá Rauða krossinum og þar mæta fullt af nemendum til að fá einingu til að útskrifast.  Og það er frábært en að sjálfssögðu eigum við að byrja fyrr við eigum að kenna þetta í grunnskólum vegna þess að við höfum séð það margoft að börn geta bjargað mannslífum og þau gera það af því þau lærðu það. Það er náttúrlega eitthvað við eigum að gera þetta í byrjun grunnskóla.“ 

 

  

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV