Boris vill að Bretar þræti ekki um jólin

24.12.2019 - 06:59
Mynd: AP / AP
Boris Johnson biður Breta um að reyna að halda sig frá þrætum við tengdaforeldrana og aðra yfir jólahátíðina í fyrstu jólakveðju sinni sem forsætisráðherra. Hann sendi frá sér myndbandskveðju í gær, þar sem hann minntist ekki einu orði á Brexit.

Johnson kvaðst vonast til þess að allir njóti næstu daga, um leið og hann hvatti fólk til að líta um öxl og taka fagnandi á móti komandi tíð. 

Seinni hluti kveðjunnar var á alvarlegri nótum, þar sem hann beindi sjónum sínum að mikilvægi jólanna fyrir þá milljarða jarðarbúa sem eru kristnitrúar. Þá hét hann því að sýna þeim sem sæta ofsóknum samstöðu. „Þeir koma til með að fagna jóladegi í leynd, jafnvel á bak við fangelsisrimla," sagði Johnson. Sagði hann það vera eitthvað sem hann vilji breyta sem forsætisráðherra. Hann standi með kristnum hvar sem þeir eru í heiminum, og berjist fyrir rétti þeirra til að iðka trú sína í friði.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi