Borgartúni lokað í 8 klukkustundir á morgun

03.09.2019 - 16:41
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Gert er ráð fyrir að Borgartúni verði lokað milli klukkan 9 og 17 á morgun vegna heimsóknar Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, hingað til lands. Hann mun eiga fund í Höfða við Borgartún á morgun.

Strætó mun þess vegna ekki ganga um Borgartún á meðan lokað er. Leiðir 4, 12 og 16, sem vanalega aka Borgartún á leið sinni um borgina, aka Sæbraut í staðinn. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi Strætó í samtali við fréttastofu.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV

Ekki hefur náðst í lögreglu vegna þessara lokana og það ekki fengist staðfest hvort aðrar götur í nágreninu verði einnig lokaðar. Starfsfólk fyrirtækja í turninum við Höfðatorg hefur fengið ábendingar um að tafir verði á umferð í nágrenninu á morgun.

Höfði girtur af fyrir Pence

Verið að girða af stórt svæði umhverfis Höfða í Reykjavík vegna heimsóknar Pence. Búið er að reisa girðingar í jaðri lóðarinnar við Höfða. Á norðanverðri lóðinni er búið að setja upp steyptan vegg með fram Sæbrautinni og girðingu þar fyrir innan.

Girðingin umhverfis húsið er til þess að halda mótmælendum í hæfilegri fjarlægð á meðan Pence er í Höfða. Nokkrir hópar ætla að efna til mótmæla vegna komu Pence hingað til lands. Þegar fréttastofu bar að garði í dag var gert ráð fyrir að mótmælendum yrði safnað saman í horni lóðarinnar við Borgartún, en viðburðastjóri í Höfða sagði að þessi staðsetning myndi að öllum líkindum breytast á morgun.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Búið er að setja steyptan vegg meðfram Sæbraut og grindverk þar fyrir innan.

Miklar öryggisráðstafanir eru einnig gerðar innanhúss í Höfða. Þar er verið að undirbúa heimsókn Pence og gera starfsmenn hússins ráð fyrir að vera fram á nótt að undirbúa. Enn átti eftir að klára að reisa girðinguna síðdegis í gær.

Lögregla hefur gríðarlegan viðbúnað vegna heimsóknar varaforsetans á morgun. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa lögreglumenn kembt turninn í Katrínartúni. Voru þeir meðal annars með sjónauka í því verkefni.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi