Borgarleikhússtjóri óskar eftir því að hætta fyrr

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhús

Borgarleikhússtjóri óskar eftir því að hætta fyrr

13.02.2020 - 16:35

Höfundar

Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri hefur óskað eftir því að starfslokum hennar verði flýtt og nýr leikhússtjóri taki við starfinu fyrr en áætlað var.

Kristín Eysteinsdóttir greinir frá því í bréfi sem hún sendi til starfsfólks Borgarleikhússins í dag að hún hafi farið þess á leit við stjórn Leikfélags Reykjavíkur að hún hætti fyrr en áætlað var. Ráðningarferli nýs leikhússtjóra stendur nú yfir og verður því flýtt.

Kristín greinir einnig frá þessu í stöðufærslu á Facebook. Þar kemur fram að hún hafi fengið tækifæri til að leikstýra kvikmynd og upplýst verði frekar um það verkefni á næstu dögum.

„Nú finn ég í hjarta mínu að það er komið að tímamótum hjá mér,“ segir Kristín. „Ég hef ríka þörf fyrir að stíga inn í nýja tíma og skapa eitthvað nýtt. Ég ætla að hlusta á hjartað, fylgja innsæinu og hef því óskað eftir starfslokum við stjórn Borgarleikhússins og beðið um að nýr leikhússtjóri taki við keflinu fyrr en áætlað var.“

Kristín hefur verið Borgarleikhússtjóri frá árinu 2014, en hún var ráðin í febrúar það ár. Stjórn Leikfélags Reykjavíkur framlengdi ráðningu hennar til 31. júlí 2021 í ágúst 2017. Leikhússtjóri heyrir undir stjórn LR og starfar í umboði hennar, til fjögurra ára í senn. 

Staða borgarleikhússtjóra var auglýst í janúar og hafa sjö sótt um hana. Stefnt var að því að nýr leikhússtjóri tæki til starfa við hlið Kristínar Eysteinsdóttur um áramót og tæki síðan alfarið við starfinu þegar síðari ráðningartímabili hennar lyki í júlí á næsta ári. Reglum samkvæmt má Borgarleikhússtjóri ekki gegna starfi lengur en tvö tímabil

Kristín var á meðal umsækjenda um stöðu þjóðleikhússtjóra. Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, skipaði Magnús Geir Þórðarson í embættið í nóvember á síðasta ári og tók hann til starfa í janúar á þessu ári.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Sjö sækja um stöðu Borgarleikhússtjóra

Menningarefni

Auglýsa eftir arftaka Kristínar

Innlent

Borgarleikhússtjóri vill stýra Þjóðleikhúsinu