Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Borgarfulltrúi leggst gegn kyrkislöngum í Húsdýragarði

12.02.2020 - 10:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er ekki hrifin af hugmynd forsvarsmanna Húsdýragarðsins að hafa þar fimm kyrkislöngur til sýnis. Hún telur að Húsdýragarðurinn eigi eingöngu að halda íslensk húsdýr. „Kyrkislöngur falla sannarlega ekki þar undir enda eiga slöngur ekkert erindi í Húsdýragarðinn,“ segir Hildur á Facebook-síðu sinni.

Í umsögn Umhverfisstofnunar um umsókn Húsdýragarðsins kemur fram að útilokað sé að kyrkislangan geti lifað við náttúrulegar aðstæður á Íslandi. Hún myndi því ekki lifa það af ef hún slyppi úr búrinu eða garðinum.

Mat sérfræðinganefndar um framandi lífverur var því að engin hætta stafaði af innflutningi á kyrkislöngum fyrir íslenskt vistkerfi.  Morgunblaðið greindi fyrst frá.

Hildur lagði fram á fundi borgarráðs í desember tillögu um stefnubreytingu á dýrahaldi í Húsdýragarðinum.  Þar yrðu eingöngu húsdýr sem unnt væri að bjóða lífvænleg skilyrði. „Ekki verði lengur haldin villt spendýr, fuglar, skriðdýr og önnur dýr sem þrífast best í villtri náttúru.“  Í tillögunni var lagt til að ekki yrði tekið á móti fleiri dýrum í garðinum, öðrum en íslenskum húsdýrum sem bjóða mætti lífvænleg skilyrði. Tillögunni var vísað til meðferðar umhverfis-og heilbrigðisráðs.

Hildur segir á Facebook-síðu sinni að slöngur eigi ekkert erindi í Húsdýragarðinn, ekki frekar en önnur villt dýr. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV