Inni á Facebook-viðburðinum Bangsaleit á höfuðborgarsvæðinu er hægt að skrá sig til leiks og setja inn myndir og götuheiti þeirra bangsa sem komnir eru í glugga. Allir borgarbúar geta tekið þátt í leiknum. Oddný Arnarsdóttir skipuleggjandi viðburðarins segir að bangsaleitin snúist fyrst og fremst um tvennt, að auka útiveru barnanna og gefa fjölskyldum skemmtileg verkefni til að leysa saman.
Hugmyndina fékk Oddný þegar hún rak augun í mynd á Facebook-síðu erlendrar vinkonu sinnar af bangsa að bíða í glugga í þarlendri bangsaleit. Datt henni þá í hug að sniðugt væri að skipuleggja rafrænan viðburð og fá fólk til að vera með í bangsaleit í Reykjavík. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. „Það er ósköp einfalt að taka þátt," segir Oddný. „Maður setur bangsa eða einhvers konar tuskudýr út í glugga þannig að hann sjáist og hugsar svo með sér hversu frábært það sé að bangsinn muni gleðja barn sem á leið hjá.“ Margar af hverfissíðunum vinsælu á Facebook hafa þegar tekið þátt í áskoruninni og hvatt fólk í sínu hverfi til að vera með. Þar má finna myndir af böngsum sem bíða þess í gluggum að fá að gleðja Reykjavíkurbörnin.
Oddný segir sérstaklega mikilvægt í ríkjandi samkomubanni að finna upp á einverju skemmtilegu að gera með börnunum sínum í inniverunni. „Ég held að flest börn finni nú gleðina í samveru með foreldrum sínum en það tekur á fyrir þau að mega ekki hitta vini sína. Dóttir mín á þó reglulega samtöl við vinkonur og fjölskyldu í gegnum netið og það er dásamlegt að hlusta á það. Persónulega ákvað ég að fara á bólakaf í djúpu laugina og baka með stelpunni minni. Hef aldrei gert slíkt áður en við erum að verða betri og betri. Ég þakka fyrir heimilisfræðina í skólanum hennar,“ segir hún og hlær.
Mæðgurnar hafa líka tekið upp á ýmsu öðru en að leita að böngsum og baka til að stytta sér stundir í heimsfaraldri. Þær hafa síðustu daga til dæmis prófað tilraunirnar í Vísindabókum Villa, lesið og spilað mikið saman. „Mikilvægust er samt samveran og samtölin. Og að gera eitthvað sem venjulega er ekki gert eins og að fara í náttföt yfir daginn og eiga kósýstund yfir góðri mynd. Allt telur þetta til að gera þennan tíma aðeins bærilegri fyrir þau.“
Hægt er að taka þátt í bangsaleitinni með því að skrá sig á þennan viðburð hér og setja inn mynd af sínum böngsum og í hvaða götu þeir búa. Einnig hefur verið útbúið bangsatalningarblað sem getur nýst leitarflokkum á ferð um borgina.