Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Borga tvöfalt fyrir sumarfríið

18.04.2019 - 16:53
Mynd með færslu
 Mynd: Sigrún Sigurðardóttir - Samsett mynd
Sigrún Sigurðardóttir og fjölskylda greiddu Gaman ferðum eina og hálfa milljón króna fyrir ferð sem aldrei verður farin. Stórfjölskyldan var á leiðinni í þriggja vikna frí til Tenerife í júlí en fékk þær upplýsingar frá Ferðamálastofu í gær að búið væri að aflýsa ferðinni. Þau fá ekki upplýsingar um endurgreiðslu fyrr en einhvern tímann eftir 20. júní þegar kröfufrestur vegna málsins er runninn út.

Fengu engin svör

Sigrún hafði samband við fyrirtækið um leið og í ljós kom að WOW air væri gjaldþrota þar sem flugfélagið átti 49% hlut í Gaman ferðum. Einn eigenda Gaman ferða lofaði svari tveimur dögum síðar, „en það kom aldrei og þá fóru að renna á mann tvær grímur,“ segir hún. Sigrún segist hafa reynt að ná sambandi við fyrirtækið í tvo daga áður en það tilkynnti að það væri hætt starfsemi. Ekki hafi verið hægt að ná í fyrirtækið símleiðis né í gegnum tölvupóst. Þrátt fyrir það hafi fyrirtækið verið að auglýsa ferðir til síðasta dags. 

Ekki allir í þeirri stöðu 

Sigrún segir fjölskyldunni hafa brugðið þegar í ljós kom að ferðin þeirra yrði ekki farin. Í kjölfarið ákváðu þau að leita annarra leiða til að komast í frí og fengu þau flug hjá Heimsferðum til Tenerife á sama tíma. Hún segir hótelið á Tenerife sem þau áttu pantað í gegnum Gaman ferðir hafa boðið þeim herbergið á tilboði sem þau þáðu.

„Við erum að borga tvöfalt sumarfrí eins og staðan er núna.“ Sigrún tekur fram að það séu ekki allir í þeirri stöðu að geta gert það. Sumir séu búnir að safna lengi fyrir fríi og henni þyki málið mjög sorglegt. Þau vita ekki hvenær eða hvort þau fá endurgreiðslu vegna upphaflegu ferðarinnar, upplýsingar um það eru ekki í sjónmáli.

Um 200 milljónir í tryggingasjóði

Samkvæmt upplýsingum frá Ferðamálastofu eru tæplega 200 milljónir króna í tryggingasjóði Gaman ferða. Frestur til að lýsa kröfum er til 20. júní og erfitt að segja til um fjölda mála á þessum tímapunkti. Þá sé ekki hægt að gefa öllum kröfuhöfum staðlað svar heldur þurfi að skoða hvert mál fyrir sig. Málið sé því mjög flókið. 

Helena Þ. Karlsdóttir, lögfræðingur Ferðamálastofu, segir að verið sé að vinna í málinu núna í samstarfi við Gaman ferðir. Ekki liggi fyrir á þessari stundu hversu háar kröfurnar eru. Hún segir ljóst að málið snerti marga, allt að 3.000 manns. Þá er ekki víst að tryggingin dugi fyrir öllum kröfum.  

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV