Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Borga miklu meira fyrir makríl en Íslendingar

28.08.2019 - 22:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Norsk fiskvinnslufyrirtækið hafa greitt allt að fjórfalt verð fyrir makríl til vinnslu og bræðslu á síðustu árum miðað við það sem íslensk fyrirtæki greiða. Þetta kemur fram í samantekt Verðlagsstofu skiptaverðs sem birt var í gær. Síðustu sjö ár hefur munurinn mest numið 294 prósentum en minnst 154 prósentum. Norðmenn fá hærra afurðaverð fyrir makrílinn sinn en Íslendingar. Þar er munurinn allt að 62 prósent.

Verðið sem fiskvinnslurnar greiða fyrir fiskinn kemur til skipta og ræður því hversu há laun sjómanna eru.

Verðlagsstofa skiptaverðs vann upplýsingar um meðalverð á makríl sem landað er til frekari vinnslu til manneldis eða bræðslu og afurðaverð á helstu afurðaflokkum makríls. Tölurnar ná yfir árin 2012 til 2018. 

Í Noregi var hráefnisverð, óháð því hvort makríllinn fari í bræðslu eða vinnslu, að meðaltali frá 125 krónum upp í 178 krónur á kílóið síðustu árin. Á Íslandi fór það mest í 52 krónur og alveg niður í 38 krónur. Munurinn var mestur í fyrra en minnstur árið 2014.

Í fyrra greiddu norsk fiskvinnslufyrirtæki 178 krónur fyrir kílóið af makríl sem fór til vinnslu en íslensk fiskvinnslufyrirtæki borguðu 47 krónur. Norsku útgerðirnar fengu litlu minna fyrir fiskinn sem fór í bræðslu, 43 krónur, en þær íslensku fengu fyrir fisk sem fór í vinnslu, fyrrnefndar 47 krónur. Íslensku útgerðirnar fengu 30 krónur fyrir kílóið af makríl sem fór í bræðslu.

Fá meira fyrir afurðirnar

Norsk fiskvinnslufyrirtæki greiða ekki aðeins meira fyrir hráefnið en þau íslensku heldur fá þau líka meira fyrir afurðir sínar. Síðustu þrjú ár hafa Norðmenn fengið tíu til 27 prósent hærra verð fyrri heilfrystan og hausskorinn makríl en Íslendingar. Þeir hafa fengið 38 til 62 prósent hærra verð fyrir makrílflök á síðustu árum og hefur munurinn farið vaxandi með árunum.