Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Borða og drekka fyrir 360 þúsund á hverjum fundi

02.12.2019 - 22:58
Borgarstjórnarfundur
 Mynd: Vilhjálmur Þór GUðmundsson - Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Kostnaður við þá 20 fundi sem borgarstjórn hefur haldið frá júlí á síðasta ári til júní á þessu ári nemur rúmum 17 milljónum eða 850 þúsund krónum á hvern fund. Inni í þeirri upphæð er matur frá Múlakaffi upp á 5,8 milljónir eða 295 þúsund á hvern fund og svo aðrar veitingar uppá 1,3 milljónir. Á hverjum fundi borgarstjórnar er því borðað og drukkið fyrir 360 þúsund krónur eða rúmar 15 þúsund krónur á hvern borgarfulltrúa.

Þetta kemur fram í svari fjármála-og áhættustýringasviðs við fyrirspurn Pawels Bartoszek, forseta borgarstjórnar, sem kynnt var á fundi forsætisnefndar fyrir helgi. 

Kostnaður við hvern fund 850.000 krónur

Í svari skrifstofustjóra borgarstjórnar kemur fram að kostnaðurinn við hvern fund borgarstjórnar sé um það bil 850 þúsund krónur. Greitt sé fyrir veitingar handa borgarstjórn, útsendingar á vef Reykjavíkurborgar og fyrir yfirvinnu húsvarða í Ráðhúsinu frá klukkan sex um kvöldið. 

Fjármála- og áhættustýringasvið segir að þrír húsverðir séu í yfirvinnu frá klukkan 18 á meðan húsið sé opið. „Ef borgarstjórnarfundir stæðu skemur en til klukkan 18 myndi sparast matarkostnaður, útsendingakostnaður og yfirvinna húsvarða.“

Ekki hafi verið greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu annarra starfsmanna á skrifstofu borgarstjórnar vegna funda borgarstjórnar en að jafnaði séu tveir til þrír starfsmenn á sérstakri fundavakt eftir að dagvinnutíma lýkur.

„Hrikalegar tölur“

Borgarfulltrúum þeirra flokka sem hafa ekki áður setið í borgarstjórn var illa brugðið við að heyra um þennan kostnað. „Hrikalegar tölur birtast okkur hér,“ segir í bókun Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins.  Veitingar séu 40 prósent af heildarupphæðinni og þarna séu því mikil tækifæri til sparnaðar. „Sú tillaga hefur margoft komið fram og er ótrúlega einföld. Byrja fundi fyrr.“

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi fyrir Flokk fólksins, sagðist orðlaus yfir þessum tölum og gerði sérstakar athugasemdir við þann kostnað sem fylgdi því að útvarpa og sjónvarpa fundunum. „Gæði útsendinga eru auk þess léleg, hljóð og mynd fer ekki saman. Ef borið er saman við útsendingar Alþingis má sjá gríðarlegan mun. Hér þarf að skoða málin ofan í kjölinn og auðvitað finna aðra leið. Þessa upphæð mætti lækka um helming í það minnsta hvað varðar tæknilegu málin.“

Fulltrúar meirihlutans sögðust ekki endilega vilja spara kostnað við að opna það lýðræðislega samtal sem fram færi á fundum borgarstjórnar. „Sjálfsagt er þó að rýna kostnað við borgarstjórnarfundi.“

Ranglega var sagt að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir væri forseti borgarstjórnar í fyrri útgáfu fréttarinnar.

Í athugasemd frá aðstoðarmanni borgarstjóra kemur fram að um 40 manns séu í mat á borgarstjórnarfundum. Auk tuttugu og þriggja borgarfulltrúa eru til að mynda varaborgarfulltrúar og öryggisverðir í mat. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV