Böndin berast að bikarúrslitaleik ÍBV og Stjörnunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Grunur leikur á að rekja megi einhverjar af COVID-19 sýkingunum í Vestmannaeyjum til bikarúrslitaleiks ÍBV og Stjörnunnar í Laugardalshöll fyrr í þessum mánuði. Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, hjá ríkislögreglustjóra. Einn úr þjálfaraliði Stjörnunnar greindist með COVID-19 tæpri viku eftir leikinn.

„Það er allavega einn möguleiki sem er verið að skoða, hvort þetta tengist þeim leik,“ segir Víðir í samtali við fréttastofu. Lögreglan í Vestmannaeyjum sagði á Facebook í gær að síðustu daga hefðu tíu greinst með COVID-19. Þau hefðu ekki augljósa tengingu  og það eina sem virtist tengja það væru íþróttakappleikir á höfuðborgarsvæðinu.

Eyjamenn fjölmenntu í Laugardalshöll þegar karlalið ÍBV tryggði sér sigur í bikarúrslitaleik gegn Stjörnunni. Tæpri viku síðar var einn úr þjálfaraliði Stjörnunnar greindur með veiruna og allt Stjörnuliðið sett í sóttkví. 

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að bæjaryfirvöld hafi gripið til ýmissa aðgerða til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar. „Við erum búin að loka leikskólanum vegna smit. Við lokuðum íþróttamiðstöðinni í morgun þar sem það er smitrakning í gangi þar. Við höfum tekið heilan árgang úr grunnskólanum þar sem við erum að athuga hvort það sé smit í gangi þar, búðir hafa breytt opnunartíma og veitingastaðir hafa snúið sér að heimsendingu. Þannig að þetta hefur haft gríðarleg áhrif á samfélagið eins og annars staðar.“

Íris er sjálf í sóttkví og segir að það eigi eftir að rekja öll smitin sem komu upp í gær. „Það á eftir að fjölga fólki í sóttkví og þetta hefur meiri og meiri áhrif en það er ótrúlegt æðruleysi í fólki og auðvitað líka smá hræðsla.“ Bæjarstjórinn deildi í gær bréfi sem hún fékk frá forseta Íslands í gær þar sem forsetahjónin sendu Eyjamönnum góðar kveðjur.

Í morgun var síðan gripið til varúðarráðstafana þegar togarinn Hrafn Sveinbjarnarson GK-255 kom til hafnar í Eyjum í morgun vegna veikinda um borð. Var óskað eftir því að kannað yrði hvort tveir til þrír skipverjar væru með COVID-19. Tigull.is greindi frá.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi