Bólusetning við hlaupabólu hefst 2020

07.06.2019 - 12:10
Mynd:  / 
Til stendur að hefja almenna bólusetningu við hlaupabólu á næsta ári. Þetta kom fram í viðtali við Þórólf Guðnason sóttvarnarlækni í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Undirbúningur undir bólusetninguna er hafin hjá sóttvarnarlækni.

Vonir standa til þess að hægt verði að hefja bólusetningu á næsta ári á börnum fæddum 2019. Þórólfur segir að bólusetningin sé mjög virk og komi vel í veg fyrir hlaupabólu. Hún sé þar að auki eins áhættulaus og hægt er en einnig mjög hagkvæm. Þetta sé því mjög gott skref.

Hlaupabóla geti verið alvarleg

Hlaupabóla er algengur barnasjúkdómur. Börn veikjast sjaldan alvarlega af sjúkdómnum en einkenni geta varað lengi með tilheyrandi vinnutapi foreldra. Auk þess er nokkuð algengt að sýking hlaupi í sárin sem koma.  

Þórólfur segir að sjúkdómurinn geti verið skæður og alvarlegur og börn geti þurft að leggjast inn á spítala. Hlaupabólan leggst ekki bara á húðina heldur getur hún lagst á sama hátt á innri líffæri og valdið alvarlegri lungnabólgu eða heilablæðingu.

Bóluefnið fæst ekki

Tíu prósent foreldra hérlendis hafa látið bólusetja börn sín við hlaupabólu og greitt fullt verð fyrir. Hlustandi greindi Morgunútvarpinu frá því að bóluefnið væri ófáanlegt á landinu sem stendur.

Þórólfur sagði að almennt kæmi reglubundið upp skortur á bóluefni þegar framleiðendur hafi ekki undan. Það gerist alls staðar. Þetta sé mikið áhyggjuefni sem sé rætt af alvöru í Evrópulönum. Fátt sé þó til ráða þar sem einkaaðilar framleiði efnin. Markaðslögmál, framboð og eftirspurn, bindi því hendur sóttvarnalæknis.

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi