Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Bolungarvíkurgöng opnuð í dag

25.09.2010 - 18:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Bolungarvíkurgöng, milli Bolungarvíkur og Hnífsdals voru formlega opnuð í dag. Göngin eru bylting í umferðaröryggi að mati heimamanna.

Göngin eru reyndar kölluð í daglegu tali Óshlíðargöng meðal heimamanna Vestra, sem eru missáttir við nafngift Vegagerðarinnar. Það er hinsvegar aukatriði í dag því nú er verið að gleðjast yfir opnun þessa langþráða samgöngumannvirkis og nafnið því aukaatriði. Hátíðahöldin hófust snemma í morgun með afhjúpun minnisvarða um látna ástvini en minnisvarðinn stendur á Skarfaskeri skammt frá Hnífsdal. Að því loknu var gangandi, akandi og hjólandi umferð hleypt í göngin í þetta eina sinn. Formleg opnun ganganna var eftir hádegi og var athöfnin Bolungarvíkurmegin. Ráðherra Samgöngumála, Ögmundur Jónasson, klippti á borðana við gangamunnann en naut við það aðstoðar forvera síns Kristjáns Möller. Síðan tók við samsæti í Bolungarvík og nú er að hefjast þar gangaveisla og síðan verður gangaball í víkinni í kvöld. Bolungarvíkurgöng stytta leiðina milli Bolungarvíkur og Hnífsdals sáralítið en eru samt, án efa, eitthvert minnst umdeilda samgöngumannvirki síðari tíma. Enda snerist gerð þeirra fyrst og fremst um að bæta umferðaröryggi. Heimamenn eru flestir á einu máli um að göngin séu bylting varðandi, samgöngur og atvinnulíf á svæðinu því margir þurfa að fara á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar jafnvel oft á dag.