Bóksöluhrunið: „Við höfum ekki náð botninum“

Mynd: RÚV / RÚV

Bóksöluhrunið: „Við höfum ekki náð botninum“

29.08.2017 - 13:30

Höfundar

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um hrun í bóksölu hér á landi, en hún hefur dregist saman um rúm 40 prósent síðan 2010. „Við höfum ekki náð botninum ennþá,“ segir Kristján B. Jónasson útgefandi. „Línan er áfram niður. Við vitum svo sem ekkert hvar botninn er.“

Mestur er samdrátturinn á árabilinu 2012-2015 segir Kristján, en á sama tíma hefur snjalltækjanotkun vaxið gífurlega. „Bókin er í keppni um tíma fólks,“ segir Guðrún Vilmundardóttir útgefandi. Þau lýsa eftir skýrri bókmenningarstefnu og segja að lausnir við vandanum séu fyrir hendi. Það þurfi bara að hrinda þeim í framkvæmd.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Kristján segir að kerfið sem hefur haldið uppi bókmenningu hér á landi sé að hruni komið. „Íslensk bókmenning er borin uppi af einkareknum fyrirtækjum, meira og minna. Við sjáum það fyrir okkur að bókamarkaður býr til bækur, þannig hefur það verið um langa hríð, alla 20. öld. Þetta virkar þá þannig að þessir höfundar, sem við teljum vera okkar höfunda og okkar stolt, þeir skrifa bækur, bókaútgefendur fjármagna útgáfu bóka þeirra, setja þær á markað og fólk kaupir þær. Þannig höldum við uppi bókmenningunni, þannig verður lesturinn til. Ef þetta kerfi hrynur, hvað þá? Það er spurningin sem við stöndum frammi fyrir núna.“ Málið snýst ekki einfaldlega um sölutölur bóka, heldur er sjálft tungumálið undir. „Ef við ætlum að halda bókmenningarstefnunni, sem er samofin hugmynd okkar um móðurmál; að við tölum það og notum það við allar mögulegar aðstæður, þá verðum við að eiga til einhvers konar miðlun á þessu máli.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Samdráttur í bóksölu hefur verið rakinn til þess að virðisaukaskattur bóka var hækkaður úr sjö prósentum í ellefu á síðasta ári. Guðrún Vilmundardóttir er ekki sammála því að virðisaukaskatturinn sé helsti dragbítur bókaútgáfunnar, en að skortur á skýrri menningarstefnu sé augljóst vandamál. „Í rauninni er fyrsta skrefið sem þarf að stíga að taka þessa sameiginlegu ákvörðun: hvort við ætlum að vinna að  þessu saman. Hvort okkur finnst þetta vera menning sem við viljum styðja við og halda utan um, eða hvort þetta er eins og hver annar bissness, sem má þá þess vegna gossa ef það gengur ekki nógu vel.“

Kristján segir að svörin séu öll til, þrátt fyrir að þetta sé marghliða vandamál. „Þetta er mjög einfalt: við þurfum að létta á opinberum álögum. Við þurfum skýra innkaupastefnu, þannig að við séum aftur að sjá fyrir okkur að skólabókasöfn og sveitarfélög séu að sinna sínum skyldum að halda bókasöfnum í lagi. Við þurfum að taka skref áfram í að ná prentarfinum, þessum 18 milljónum blaðsíðum eða svo, inn í rafræna umhverfið. Við þurfum einfaldlega líka um leið að lækka verð á viðkomandi vöru. Til þess að lækka verðið eru möguleikar eins og framleiðslustyrkir. Við þurfum að hugsa alla þessa möguleika og helst setja þá alla í gang á morgun.“

Rætt var við Guðrúnu Vilmundardóttur og Kristján B. Jónasson í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bókaþjóðin að verða snjalltækjaþjóð

Menningarefni

Þriðjungur bóksölunnar gufaður upp